Eitt af þeim verkefnum Norrænna kjarnöryggisrannsókna (NKS) sem Geislavarnir ríkisins taka þátt í fjallar um mat á áhrifum hugsanlegra kjarnorkuslysa á norræn hafsvæði.  Háskóli Íslands á einnig þátt í þessu samstarfi.  Hugsanleg dreifing efna og áhrif hefur verið könnuð og ágrip erindis sent til kynningar á ráðstefnu í haust.

Kjarnorkuslys sem leiðir til dreifingar efna í sjó er síður líklegt til að hafa alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar en slys á landi þar sem efni dreifast með lofti.  Geislamengun í sjó getur hins vegar skjótt fellt verðmæti sjávarafurða.  Við geislaslys er því mikilvægt að geta komið fljótt með trúverðugt mat á afleiðingunum, oft eru heilsufarslegar afleiðingar minni en óttast er.

Geislavarnir ríkisins hafa um árabil tekið virkan þátt í rannsóknasamstarfi norrænna geislavarnastofnana, NKS, Norrænar kjarnöryggisrannsóknir (www.nks.org).  Eitt verkefna sem Geislavarnir taka þátt í nú er COSEMA, Consequences of severe radioactivity releases to Nordic marine environment.  Verkefnið fjallar um leiðir til að meta afleiðingar hugsanlegra geislunarslysa á norrænum hafsvæðum.  Fjallað er um ýmsar tegundir slysa sem geta orsakað geislamengun, svo sem slys í kjarnorkukafbátum og kjarnorkuverum.  Ýmis líkön hafa verið notuð og borin saman til að meta dreifingu efna. Áfangaskýrsla eftir starf fyrra árs (2012) hefur verið gefin út, hana má nálgast á vef NKS:  Consequences of severe radioactive releases to Nordic Marine environment.  Í síðustu viku var haldinn fundur í Danmörku til að skipuleggja starf síðara árs þessa verkefnis.

Innan þessa verkefnis hafa Geislavarnir átt náið samstarf við Háskóla Íslands og Geislavarnastofnun Noregs (www.nrpa.no).  Þessar stofnanir sendu í síðustu viku útdrátt erindis til samþykktar á ráðstefnu Evrópska geislarannsóknafélagsins (European Radiation Research Society) í haust (http://www.err2013.ie/).  Titill erindis er Evaluation of Consequences of a Potential Accident with the Modern Operative Nuclear Submarine in the Iceland Coastal Waters og fjallar það um hvaða afleiðingar slys í kjarnorkukafbáti á íslensku hafsvæði gæti haft.  Í rannsókninni kemur fram að þótt slíkt slys myndi hafa takmörkuð heilsufarsleg áhrif þegar á heildina er litið, þá myndi tímabundinn og staðbundinn styrkur geislavirkra efna í sjó og sjávarafurðum geta verið nokkur.  Yrði slíkt slys myndi örugglega koma sterk krafa um mat á afleiðingum þess frá kaupendum sjávarafurða.

Lokaskýrsla COSEMA verkefnisins er væntanleg í árslok eða snemma á næsta ári.  Það er mjög gagnlegt að geta unnið mat á hugsanlegri dreifingu efna frá geislaslysi í samvinnu við viðurkenndar innlendar og erlendar rannsóknastofnanir, á ögurstundu getur trúverðugleikinn skipt öllu.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Emil Pálsson, viðbúnaðarstjóri Geislavarna ríkisins