Í skýrslu á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og Alþjóðaráðs um ójónandi geislun (ICNIRIP) sem nýlega kom út er fjallað um hvernig UV-stuðull er reiknaður og um notkun UV-stuðuls til að draga úr áhættu vegna sólargeislunar.

Síðast í skýrslunni eru birtar ráðleggingar í nokkrum liðum um notkun stuðulsins. Þar á meðal er eftirfarandi:

  • Þröskuldur fyrir ráðleggingar vegna sólarvarna skal miðast við UV-stuðul 3.
  • Stuðst skal við áætlaðan UV-stuðul fremur en mældan stuðul, þar sem mældur stuðull gæti leitt til misskilnings og skaða vegna skyndilegra veðurbreytinga.
  • Ef notuð er ein tala skal hún vera fyrir áætlaðan UV-stuðul á sólarhádegi (um kl 13:30) á Íslandi. 
  • Gagnlegt getur verið að tiltaka hvaða tíma dags sé þörf á sólarvörnum og gæta skal þess að ráðleggingar um sólarvarnir séu ekki í mótsögn við aðrar ráðleggingar um heilbrigt líferni svo sem um hreyfingu utandyra. 

Geislavarnir ríkisins hafa birt upplýsingar um UV-stuðul á vefsíðu sinni frá því í júní 2012 (sjá: http://uv.gr.is/) og munu taka tillit til ráðlegginga í þessari skýrslu. Á Íslandi er UV-stuðull 5 algengur á sumrin og því þarf að huga að sólarvörnum.

            Skýrslan verður birt í tímaritinu Health Physics. Hún er nú þegar aðgengileg á vefsíðu: www.icnirp.de.

 

Skýrslan á pdf formi: http://www.icnirp.de/documents/UVIpaper.pdf

 

 

Nánari upplýsingar gefur Þorgeir Sigurðsson ts@gr.is