Þekking á geislaskömmtum sjúklinga í myndgreiningarannsóknum er mikilvæg fyrir alla sem framkvæma slíkar rannsóknir.  Upplýsingar um dæmigerða geislaskammta á hverjum stað eiga að vera aðgengilegar bæði starfsfólki og þeim sem þurfa á myndgreiningarannsókn að halda.

Leggja skal áherslu á að reikna og birta dæmigerða geislaskammta fyrir þær rannsóknir sem eru algengastar á hverjum stað, en einnig þær sem eru geislaþungar.

Dæmigerður geislaskammtur er miðgildi geislaskammts hóps sjúklinga í tiltekinni rannsókn sem framkvæmd er með tilteknum búnaði.

Ef hæð og þyngd sjúklinga er þekkt er hægt að safna upplýsingum um meðalstóra sjúklinga eingöngu og þá þarf úrtak ekki að vera stærra en 20 rannsóknir, en ef stærð sjúklinga er ekki þekkt þarf úrtakið að vera að lágmarki 50 rannsóknir.

Við mat á geislaskömmtum sjúklinga skal nota þær geislaskammastærðir sem eru aðgengilegar við framkvæmd rannsókna, en þær eru mismunandi eftir gerð tækja.  Taflan hér fyrir neðan sýnir geislaskammtastærðir og mælieiningar sem á að nota.

Gerð tækis Geislaskammtastærð Mælieining Að auki:
Röntgentæki Flatargeislun mGy cm2 / Gy cm2 *
Skyggnitæki Flatargeislun mGy cm2 / Gy cm2 *
Tölvusneiðmyndatæki Lengdargeislun mGy cm CTDIvol (mGy)
Tannröntgentæki Geislaskammtur mGy
Ísótóparannsóknir Virkni / líkamsþunga MBq/kg

* forskeyti fyrir mælieiningar eru mismunandi eftir tækjum, fleiri útgáfur eru í notkun

Öll röntgentæki, skyggnitæki og tölvusneiðmyndatæki frá 2010 sýna geislaskammta en sum eldri tæki gera það ekki.  Geislavarnir ríkisins lána geislamæla tímabundið til mælinga á geislaskömmtum þangað sem þess er þörf.

Geislavarnir ríkisins safna saman upplýsingum um dæmigerða geislaskammta og nota til grundvallar þegar landsviðmið eru sett.  Rit Alþjóða geislavarnaráðsins (ICRP) nr. 135:  Diagnostic Reference Levels in Medical Imaging, fjallar ítarlega um landsviðmið geislaskammta og grundvöll þeirra.