Meðalgeislaálag í tölvusneiðmyndum

Á vef Geislavarna ríkisins (GR) hafa nú verið birtar tvær nýjar síður sem sýna meðalgeislaskammta í tölvusneiðmyndarannsóknum (TS) á nokkrum stöðum á Íslandi, samanborið við landsviðmið sem nágrannalönd okkar hafa gefið út.

Markmiðið með því að birta þessar upplýsingar er að veita endurgjöf til þeirra sem sent hafa GR geislaskammtaupplýsingar og að hvetja fagfólk í myndgreiningu til að bera meðalgeislaskammta hjá sér saman við meðalgeislaskammta annars staðar.

Landsviðmið er leiðbeinandi tala sem er valin þannig að í flestum tilvikum á meðalgeislaskammtur að vera lægri en sú tala.  Þetta viðmið þarf að skilgreina í hverju landi fyrir sig og til grundvallar þurfa að liggja nýlegar upplýsingar um geislaskammta í rannsóknum þar.

GR vinna áfram að því að afla upplýsinga um geislaskammta frá myndgreiningardeildum á Íslandi en samkvæmt reglugerð 1299/2015 (46. gr.) skal  á hverjum stað meta meðalgeislaálag sjúklinga, fyrir þær rannsóknir sem þar eru framkvæmdar, á þriggja ára fresti.  Tölurnar á vefsíðu GR verða uppfærðar eftir því sem nýjar berast.

2017-02-22T08:55:55+00:00 22.02.2017|Efnistök: , , |0 Comments