Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um áhrif kjarnorkugeislunar, UNSCEAR (United Nations Scientific Committee on the Effects of Atomic Radiation), hefur gefið út skýrslu um geislaálag í læknisfræði.

Meginmarkið skýrslunnar voru að áætla geislaálag (e. effective dose) sjúklinga á heimsvísu vegna notkunar jónandi geislunar í læknisfræði, að meta hlutfallslegt framlag mismunandi aðferða og aðgerða til geislaálags sjúklinga og að athuga hvert stefnir með tilliti til geislaálags. Einnig var lagt mat á hlutfallslegan fjölda rannsókna í myndgreiningu og fjölda meðferða þar sem jónandi geislun er notuð. UNSCEAR lagði síðast mat á geislaálag sjúklinga í skýrslu sem kom út árið 2008.

Skýrslan byggist á gögnum frá aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna frá árunum 2009-2018 og á vísindagreinum um geislaálag á árunum frá því síðasta skýrsla um geislaálag sjúklinga kom út. Höfundar skýrslunnar telja að gögn send inn frá aðildarríkjunum fyrir þessa skýrslu nái yfir um 40-60% mannkyns, borið saman við 10-30% fyrir skýrsluna árið 2008.

Niðurstöðum skýrslunnar var skipt upp í fjóra flokka eftir hlutfallslegum fjölda lækna í hverju landi og var mest af gögnum skýrslunnar fengið frá löndum í efsta flokki (þ.e. fleiri en einn læknir á hverja 1.000 íbúa). Flokkunin var notuð til að áætla fjölda myndgreiningarrannsókna og geislaálag í löndum sem ekki skiluðu inn gögnum til nefndarinnar. Í skýrslunni var löndum einnig skipt í fjóra flokka eftir tekjustigi skv. flokkun Alþjóðabankans (World Bank), en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) notar sömu flokkun.

Meðalfjöldi myndgreiningarrannsókna á heimsvísu á tímabilinu 2009-2018 var 4,2 milljarðar rannsókna á ári og var hópgeislaálag (e. collective effective dose) vegna þessara rannsókna áætlað 4,2 milljón man Sv á ári. Auk þessa áætluðu höfundar skýrslunnar að 6,2 milljónir geislameðferðir og 1,4 milljón meðferðir með kjarnlækningum (e. nuclear medicine) væru framkvæmdar á ári að meðaltali. Geislaskammtur sjúklinga vegna slíkra meðferða var ekki talinn með í áætluðu geislaálagi, þar sem geislaálag hentar ekki sem mæliaðferð við aðstæður þar sem geislaskammtar eru stórir.

Meðalgeislaálag sjúklinga vegna myndgreiningarrannsókna jókst með hlutfallslegum fjölda lækna og hækkandi tekjustigi. Meðalgeislaálag sjúklinga í löndum með flesta lækna á hverja 1,000 íbúa var áætlað 0,83 mSv á ári en lækkaði skarpt með eftir því sem læknum fækkaði hlutfallslega og var áætlað 0,05 mSv fyrir löndin í lægsta flokkinum. Samsvarandi meðalgeislaálag sjúklinga í tekjuhæstu löndunum var 1,71 mSv á ári. Meðalgeislaálag sjúklinga á heimsvísu vegna myndgreiningarrannsókna var 0,57 mSv á ári. Þessar niðurstöður hafa lítið breyst frá fyrri skýrslu UNSCEAR um geislaálag sjúklinga árið 2008.

Með tilliti til myndgreiningaraðferða, þá féllu um 63% rannsókna undir hefðbundnar röntgenmyndatökur, 26% rannsókna voru hefðbundnar tannröntgenmyndatökur, um 10% rannsókna voru tölvusneiðmyndatökur, um 1% rannsókna inngripsrannsóknir (e. interventional radiology) og 1% voru ísótóparannsóknir. Hópgeislaálag myndgreiningaraðferða stóð ekki í jöfnu hlutfalli við fjölda rannsókna – t.d. var um 62% hópgeislaálags á heimsvísu vegna tölvusneiðmynda og aðeins rétt um 0,2% hópgeislaálags vegna hefðbundinna tannröntgenmyndataka.

Frá því að síðasta skýrsla um geislaálag sjúklinga var gefin út árið 2008, þá hefur tölvusneiðmyndatökum fjölgað um 80% og hefur hópgeislaálag vegna þessa á heimsvísu aukist um 70%. Til móts við þessa aukningu hefur hefðbundnum röntgenmyndum fækkað um 10% og hópgeislaálag vegna þeirra minnkað um 60% frá síðustu skýrslu, sem skýrist meðal annars af fækkun rannsókna í meltingarvegi og breyttri aðferðafræði við áætlun fjölda rannsókna í löndum sem skiluðu ekki gögnum. Höfundar skýrslunnar telja vísbendingar um að geislaálag sjúklinga við hverja tölvusneiðmyndatöku fari lækkandi en vegið meðaltal geislaálags fyrir slíkar rannsóknir var áætlað 6,4 mSv. Ísótóparannsóknum hefur einnig fjölgað um 20% síðan síðasta skýrsla um geislaálag var gefin út af UNSCEAR og hefur hópgeislaálag vegna slíkra rannsókna aukist um 50%, að mestu vegna fjölgunar jáeindaskanna (PET) rannsókna en áætlað geislaálag vegna PET/CT rannsóknar er um 15 mSv.

Á heildina litið hefur hlutfallslegur fjöldi rannsókna og meðferða þar sem jónandi geislun er notuð og geislaálag sjúklinga vegna þeirra aukist lítið frá því síðasta skýrsla UNSCEAR um þessi efni kom út árið 2008. Höfundar skýrslunnar telja líklegt að notkun tölvusneiðmyndatækja muni halda áfram að aukast og að sama skapi muni geislaálag vegna inngripsrannsókna aukast á komandi árum, þegar notkun þessara rannsókna verður aðgengilegri á heimsvísu, sérstaklega í löndum með lægra tekjustig.