Milliríkjasamningurinn, sem er sá 33. sem CTBTO gerir við aðildarríki, tryggir stofnuninni fyrst og fremst nauðsynlegt lagalegt umhverfi í hverju ríki til að starfrækja eftirlitsstöðvar í hnattrænu vöktunarkerfi (IMS, International Monitoring System). Kerfi þetta samanstendur m.a. af á fjórða hundrað eftirlitsstöðvum sem nema lágtíðnihljóð í lofti, neðansjávarhljóð, jarðhræringar og geislavirk efni í andrúmslofti. Gögnum frá stöðvunum er miðlað í rauntíma til gagnamiðstöðvar í höfuðstöðvum CTBTO í Vínarborg. Með þessari vöktun er fylgst með því hvort brotið sé á sáttmálanum um tilraunabann. Tvær þessara stöðva eru starfræktar á Íslandi, stöð sem mælir gammageislandi efni í andrúmslofti sem Geislavarnir ríkisins annast og jarðskjálftamælir í umsjá Veðurstofu.

Sveinn Björnsson, sendiherra Íslands í Austurríki og fastafulltrúi gagnvart CTBTO undirritaði milliríkjasamninginn fyrir Íslands hönd og Tibor Tóth aðalritari fyrir hönd CTBTO. Viðstaddur undirritunina var Sigurður M. Magnússon, forstöðumaður Geislavarna ríkisins. Frétt um undirritunina má sjá á heimasíðu CTBTO. Bein tilvísun í fréttina.

Ísland undirritaði alþjóðasáttmálann um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn 24. september 1996, daginn sem hann var lagður fram til undirritunar, og Alþingi Íslendinga fullgilti hann 26. júní 2000. 16. maí 2001 voru svo sett lög á Alþingi um framkvæmd samningsins á Íslandi. Alls hafa 176 ríki undirritað sáttmálann og 125 fullgilt hann.

Sjá einnig umfjöllun í vefriti Utanríkisráðuneytis, Stiklum um alþjóðamál.

Frá undirritun samnings við CTBTO

Mynd tekin eftir undirritun samningsins í Vínarborg þann 13. október sl. Á myndinni eru m.a. Tibor Tóth, framkvændastjóri CTBTO (2. f.v.), Sveinn Björnsson, sendiherra, (3. f.v.) og Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins (4. f.v.).

 

 

Frá undirritun samnings við CTBTO

 

Sveinn Björnsson sendiherra og Tibor Tóth framkvæmdastjóri CTBTO við undirritun samningsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

 Eftirlitsstöðvar CTBTO

        Eftirlitsstöðvakerfi CTBTO

        

 

 

25. október 2005