Í gær, 4. júní, kl. 13:07 að íslenskum tíma, kom í ljós leki úr innri hringrás kjarnakljúfsins og var slökkt á kljúfnum í kjölfarið til að unnt væri að sinna viðgerð. Það mun taka nokkra daga, því fyrst þarf að bíða eftir að kljúfurinn kólni. Bilanir af þessari tegund eru kallaðar LOCA („Loss of coolant accident“) og þær fela í sér að kæling kjarnakljúfs bilar. Við því verður að bregðast til að hann ofhitni ekki (stöðva kjarnaklofnun og sjá kljúfnum fyrir nægilegri kælingu). Nútíma kjarnorkuver eru hönnuð með ýmis konar öryggisbúnaði til að taka á bilunum af þessu tagi. Engar vísbendingar eru um annað en að öryggisbúnaður hafi virkað eins og hann átti að gera, að starfsfólk hafi brugðist rétt við vandanum og að engrar óeðlilegrar aukningar geislunar muni gæta fyrir utan kjarnorkuverið. Stjórnvöld í Slóveníu birtu fljótt tilkynningu um bilunina og sendu t.d. með formlegum hætti til grannríkja og til Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar, IAEA. Geislavarnir ríkisins fengu tilkynningu um bilunina þaðan og einnig frá systurstofnunum á Norðurlöndum sem fylgdust náið með fregnum af biluninni og greindu þær. Geislavarnir ríkisins fylgdust þannig náið með málinu frá og með síðdegis í gær og stofnuninni hefði verið tilkynnt strax ef bilunin hefði þróast á verri veg. Þessi miðlun upplýsinga endurspeglar þróun sem hefur orðið á síðustu árum, því unnið hefur verið að því markvisst að auka traust á milli ríkja í miðlun upplýsinga og lækka þann þröskuld sem þarf til að upplýsingar þyki eiga erindi til grannríkja. Náin samvinna Norðurlanda hefur þótt vera til fyrirmyndar á þessu sviði. Ekki er lengur einungis miðað við að miðla upplýsingum um slys sem geta haft alvarlegar afleiðingar í grannríkjum, heldur einnig um einfaldar bilanir sem ekki eru líklegar til að hafa nein áhrif í viðkomandi landi. Það, að upplýsingum um bilunina hafi verið dreift víða um Evrópu og jafnvel verið í fréttum, endurspeglar því ekki að bilunin hafi verið alvarleg, heldur þær framfarir sem hafa orðið í skilvirkri og opinni miðlun upplýsinga á síðari árum.

Nánari fróðleikur:

Tilkynning um bilunina frá slóvenska kjarnorkueftirlitinu

Upplýsingar á Wikipediu um kjarnorkuverið í Krsko (þar sem bilunar í gær er getið)

Upplýsingar á Wikipediu um LOCA bilanir í kjarnorkuverum

Viðbót síðdegis 5. júní:

Uppfærð tilkynning frá slóvenska kjarnorkueftirlitinu

Hljóðrituð yfirlýsing Dr Andrej Stritar, forstjóra slóvenska kjarnorkueftirlitsins, um bilunina og hvernig staðið var að tilkynningum um hana (á ensku)