Myndband sem lítur út eins það hafi verið tekið upp í heimahúsi með frumstæðum tækjum hefur ratað í tölvupósti til fólks um víða veröld. Myndbandið sýnir nokkra vini poppa maís með fjórum farsímum:

Þetta myndband og önnur sams konar, voru útbúin fyrir fyrirtæki sem framleiðir handfrjálsan búnað fyrir farsíma. Í þætti hjá sjónvarpsstöðinni CNN er sagt frá þessu og birt viðtal við þá sem stóðu að „auglýsingunni“. Sjónvarpsþátt CNN má finna hér.

Ekki fréttu allir af því að myndbandið væri gabb og það hefur haldið áfram að dreifast á milli tölva eins og vírus.

Á Íslandi, sem annars staðar, hafa margir velt því fyrir sér hvort örbylgjugeislun frá farsímum geti hugsanlega poppað maís. Í sumar hafði útvarpsstöð samband við Geislavarnir ríkisins til að afla upplýsinga um þetta og var strax bent á umfjöllun CNN.

Mönnum dettur þetta í hug vegna þess að fjarskiptatíðnir sem GSM símar nota eru ekki ólíkar tíðni örbylgjuofna. Hinsvegar er aflið í örbylgjuofnum er um 1000 sinnum meira en í farsímum og inni í lokuðu rými (hún endurvarpast af veggjum ofnsins).

Við mælingar Geislavarna ríkisins á rafsegulgeislun frá farsímum kemur í ljós að hún er af svipaðri stærð og utan við örbylgjuofna í gangi. Engum dettur í hug að hægt sé að poppa maís með örbylgjuofni nema maísinn sé settur inn í ofninn.

Geislavarnir ríkisins og aðrar sambærilegar stofnanir á Norðurlöndum mæla með notkun handfrjálss búnaðar. Þetta er gert í varúðarskyni en ekki vegna þess að í ljós hafi komið að notkun farsíma sé hættuleg.

Á mörgum símum er hægt að hafa hátalarastillingu á símanum og þá er óþarfi að bera símann að höfðinu. Sú lausn getur verið alveg eins góð til að draga úr óþarfa rafsegulsviði nálægt höfði eins og að nota handfrjálsan búnað.

ÞS