Laust fyrir kl. 3 í nótt sprengdu N-Kóreumenn kjarnorkusprengju á tilraunasvæði sínu nærri Pyongyang, höfuðborg N-Kóreu. Mælingar úr vöktunarkerfi CTBTO (Comprehensive Nuclear-Test-Ban Treaty Organisation) leiddu samstundis í ljós að um sprengingu hefði verið að ræða, en ekki jarðhræringar.  Með geislamælum kerfisins mun síðan vera hægt að staðfesta á næstu dögum að um kjarnorkusprengingu hafi verið að ræða.

Jarðhræringar frá kjarnorkusprengingum eru tiltölulega auðmælanlegar með hinu fullkomna eftirlitskerfi CTBTO, en eingöngu með mælingum á geislavirkum efnum má staðfesta að um kjarnorkusprengingu hafi verið að ræða en ekki hefðbundin sprengiefni. Geislavarnir hafa fjallað um fyrri tilraunasprengingar N-Kóreumanna og eftirlitskerfi CTBTO, en ein mælistöð kerfisins er staðsett í Reykjavík og er í umsjá Geislavarna. Þar eru mældar gammageislandi agnir í andrúmslofti og var sú stöð t.d. sú fyrsta í Evrópu sem nam efni frá slysinu í Fukushima í mars 2011. Samkvæmt fyrstu dreifilíkönum sem gefnar voru út í morgun er þess að vænta að ef geislavirkar agnir berast frá sprengjustað muni þær fyrst mælast í Ussuriysk í Rússlandi, Takasaki í Japan og síðar í Petropavlovsk-Kamchatskiy í Rússlandi, og svo e.t.v. víðar, allt eftir því hve mikið af geislavirkum efnum losnaði til umhverfis og með hvaða hætti. Líklegt er að efnin berist mælistöðvunum á 1-2 sólarhringum og að fyrstu mælingar liggi fyrir 3-5 sólarhringum eftir sprengingu. Á fréttasíðu CTBTO (http://newsroom.ctbto.org/) er að finna nánari upplýsingar.