Vikuna 5.-9. ágúst sl. stóðu Geislavarnir ríkisins fyrir námskeiði í samvinnu við CTBTO (Comprehensive Nuclear-Test-Ban Treaty Organisation) til að efla þekkingu og viðhalda tæknilegri færni þeirra sem sinna rekstri eftirlitsstöðva alþjóðasáttmálans um allsherjarbann við kjarnorkutilraunum.

Í þessu skyni komu til Íslands tæknimenn frá mælistöðvum sem hafa sambærilegan tækjabúnað og er í mælistöð Geislavarna ríkisins en þær eru í Mexico, á Asoreyjum, í Stokkhólmi og á Svalbarða. Einnig tóku þátt framleiðendur tækjabúnaðarins og fulltrúar frá skrifstofu alþjóðasáttmálans.

Eftirlitskerfi CTBTO hefur það hlutverk að sannreyna að ekki sé brotið á alþjóðasáttmálanum um allsherjarbann við kjarnorkutilraunum (CTBT, Comprehensive Nuclear-Test-Ban Treaty). Byggir kerfið helst á mælingum á jarðhræringum, vöktun á hljóðbylgjum neðansjávar og í andrúmslofti, og mælingum á gammageislandi efnum í andrúmslofti. Ekki gefast mörg færi á að sannreyna getu kerfisins en á undanförnum árum hefur það þó komið að góðum notum, s.s. eftir hamfarirnar í Japan í mars 2011 þegar Fukushima-kjarnorkuverið skaddaðist svo geislavirk efni sluppu til umhverfis og mældust víða um heim. Fréttir af mælingum á geislavirkum efnum þaðan voru m.a. birtar á vef Geislavarna í mars 2011. Þá hefur kerfinu reynst vandalítið að staðfesta tilraunasprengingar N-Kóreumanna. Vegna þess hve kerfið er víðfeðmt og næmt hefur tekist samvinna við vísindamenn og viðbúnaðarstofnanir um notkun á gögnum frá því til að gefa út flóðbylgjuviðvaranir og að auka öryggi. Fjallað er um nokkur dæmi þess hér.

Frekari upplýsingar veitir Kjartan Guðnason (kg hjá gr.is)