Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa áhuga á jónandi geislun (röntgen, gamma-, beta- og alfageislun) og/eða þurfa að nota mælistærðir tengdar henni í starfi sínu.

Í fyrri hluta námskeiðs (fyrir hádegi) verður fjallað um líffræðileg áhrif jónandi geislunar (t.d. af hverju þessi áhrif eru mun meiri en fyrir aðrar tegundir geislunar) og síðan fjallað um hvers konar eðlisfræðilegar mælistærðir þarf til að geta metið þessi áhrif með tölulegum hætti. Mælistærðir sem lýsa heilsufarslegum áhrifum byggja á ákveðnum forsendum, séu þær ekki fyrir hendi verður að túlka niðurstöður mælinga með hliðsjón af því.

Í síðari hluta námskeiðsins (eftir hádegi) verður áherslan á mælitæknina, hvaða stærðir sé best að mæla og hvernig. Meðal annars verður fjallað um kröfur í lögum og reglugerðum til mælinga á þeirri geislun sem sjúklingar verða fyrir, hvernig nota skuli ýmsar gerðir mæla með viðeigandi kvörðunarstuðlum.  Sérstök áhersla verður á ákvörðun kvörðunarstuðla.  Námskeiðinu lýkur með samantekt og umræðum.

Fyrirlesarar verða (í þessari röð):  Sigurður Emil Pálsson, Þorgeir Sigurðsson og Jan-Erik Grindborg.  Tveir fyrstu eru sérfræðingar hjá Geislavörnum ríkisins og Jan-Erik Grindborg er sérfræðingur hjá Geislavarnastofnun sænska ríkisins (SSI).  Hann hefur verið mjög virkur í kvörðunarstarfi og kemur til Íslands í boði Geislavarna ríkisins.

Námskeiðið verður haldið 11. október og hefst kl. 9:30 og lýkur um kl. 15.

Þeim sem hafa áhuga á að skrá sig er bent á vef Endurmenntunarstofnunar Háskólans:

www.endurmenntun.is 

Upplýsingar um námskeiðið er einnig að finna á námskeiðssíðu vefs Geislavarna:

https://www.gr.is/stofnunin/namskeid/

Þar mun nánari dagskrá einnig verða birt og stoðefni tengt námskeiðinu.

Dagskrá