Á vefsetri Geislavarna ríkisins eru birtar upplýsingar um námskeið hjá stofnuninni í haust.  Tveimur er þegar lokið en eitt á döfinni. Um er að ræða námskeið fyrir bæði ábyrgðarmenn og tæknimenn vegna notkunar geislatækja í læknisfræðilegum tilgangi, vegna notkunar í iðnaði og við öryggisgæslu. Á næsta ári verða í boði fleiri námskeið, s.s. fyrir ábyrgðarmenn vegna notkunar lokaðra geislalinda sem notaðar eru í læknisfræði og í iðnaði.

Í lögum nr. 44/2002 um geislavarnir er sú skylda lögð á leyfishafa geislatækja og geislavirkra efna að skipa ábyrgðarmann vegna notkunar þeirra. Ábyrgðarmaður skal uppfylla skilyrði sem fram koma í lögunum og í reglugerð nr. 1299/2015 um geislavarnir vegna notkunar geislatækja sem gefa frá sér jónandi geislun og í reglugerð nr. 1298/2015 um geislavarnir við notkun lokaðra geislalinda. Þetta á við um alla notkun hvort sem hún er í  geislameðferð, læknisfræðilegri myndgreiningu, hjá tannlæknum, dýralæknum, hnykkjum (kírópraktorar), í iðnaði eða öryggisgæslu.

Þátttaka í þessum námskeiðum er skilyrði þess að öðlast viðurkenningu Geislavarna ríkisins vegna ofangreindra lagaákvæða. Námskeiðin eru einnig mikilvæg upprifjun fyrir þá aðila sem þegar hafa hlotið þessa viðurkenningu.

 

Námskeið 2016 fyrir:

  1. Ábyrgðarmenn og tæknimenn vegna geislatækja sem notuð eru í iðnaði og við öryggisgæslu. Tími:  29. september 2016  (kl. 08:30 – 16:00)
  2. Tæknimenn sem annast uppsetningar og viðgerðir geislatækja sem notuð eru í læknisfræðilegum tilgangi. Tími:  6. október 2016  (kl. 08:30 – 17:00)
  3. Ábyrgðarmenn geislatækja sem notuð eru læknisfræðilegum tilgangi. Tími:  3. nóvember 2016  (kl. 08:00 – 17:00)

 

Fyrirhuguð námskeið 2017 fyrir (Dagsetningar óákveðnar) :

  1. Ábyrgðarmenn vegna notkunar lokaðra geislalinda í læknisfræði
  2. Ábyrgðarmenn vegna notkunar lokaðra geislalinda í iðnaði/annað
  3. Ábyrgðarmenn og tæknimenn vegna geislatækja sem notuð eru í iðnaði og við öryggisgæslu.
  4. Ábyrgðar- og tæknimenn geislatækja sem notuð eru í læknisfræðilegum tilgangi.