Geislun er og hefur alltaf verið hluti af náttúrulegu umhverfi Jarðar. Þessi náttúrulega geislun sem allir verða fyrir er oft kölluð bakgrunnsgeislun, en megin uppistaða hennar er náttúruleg geislun sem berst utan úr himingeimnum (geimgeislun), geislun frá geislavirkum efnum í jarðvegi, bergi og byggingarefnum, geislun frá geislavirkum efnum í líkama mannsins og geislun frá geislavirkum lofttegundum sem við öndum að okkur (radon). Að auki bætist við geislun af völdum manngerðra geislavirkra efna í umhverfi okkar, en sú viðbótargeislun er hlutfallslega mjög lítil.

Bakgrunnsgeislun er breytileg frá einum stað til annars. Hér á landi er hún mjög lítil og ræður þar mestu gerð bergs og jarðvegs. Íslenskt berg er basískst og snautt af geislavirkum efnum. Þegar áhrif geislunar frá ýmsum þáttum í umhverfi okkar (á vinnustað eða annars staðar) eru metin, þá er hollt að hafa í huga samanburð við áhrif geislunar frá náttúrulegu umhverfi okkar.

Hér má sjá súlurit frá árinu 2000 (pdf skjal) sem sýnir áætlað geislaálag vegna náttúrulegrar geislunar á Norðurlöndunum og sundurliðun þess eftir uppsprettu. Athuganir sem hafa verið gerðar síðan þá benda til þess að geislaálagið á Íslandi sé enn lægra.

Geislavarnastofnanir norðurlandanna hafa í sameiningu gefið úr rit um náttúrlega bakgrunnsgeislun.  Þar er fjallað ítarlega um geislavirkni í jarðvegi, lofti og vatni.