Við atkvæðagreiðslu hjá CENELEC, evrópsku rafstaðlasamtökunum, sem lauk 20. september náðu breytingar á ljósabekkjastaðli tilskildum meirihluta atkvæða til samþykktar. Engu að síður ákvað stjórn viðkomandi tækninefndar að þörf væri á frekari umræðu. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar og athugasemdir með atkvæðum verða þess vegna ræddar og túlkaðar á fundi þann 16.-17. nóvember 2005 í Brussel.

Vísað er til fréttar á vefsíðu Geislavarna um um breytingar á evrópskum ljósabekkjastaðli og áhrif hans á Íslandi. Samkvæmt þeim gæti leyfileg UV-geislun í ljósabekkjum hjá sólbaðsstofum tvöfaldast. Enn er óvíst hvort breytinga sé að vænta á evrópsku lagaumhverfi um ljósabekki og hver viðbrögð verða á Íslandi og öðrum Norðurlöndum. Geislavarnir ríkisins vinna með Rafstaðlaráði Íslands og taka þátt í norrænu samstarfi um þetta sem leggur til grundvallar norræna yfirlýsingu um ljósabekki sem áður hefur verið sagt frá á vefsíðum Geislavarna.