Geislavarnir ríkisins hófu mat á styrk náttúrlegra geislavirkra efna í útfellingum í jarðvarmavirkjunum á Íslandi í kjölfar þess að aukin náttúruleg geislavirkni mældist í útfellingum við Reykjanesvirkjun. Greint var frá vettvangsferðum og fyrstu niðurstöðum mælinga á heimasíðu stofnunarinnar þann 30. október sl., sjá frétt þar um.

Eins og þar kemur fram var farið í vettvangsferð að Hellisheiðarvirkjun þann 27. október 2015. Handmælar stofnunarinnar gáfu til kynna væga aukningu á geislavirkni í útfellingum í einum höfuðloka og í rakaskiljum virkjunarinnar en töluvert minni en í útfellingum við Reykjanesvirkjun. Gammarófsmæling hjá Geislavörnum gaf til kynna að magn pólon 210 (Po-210) væri nálægt greiningarmörkum og ekki sáust merki um blý 210 (Pb-210).  Tvö sýni voru send í mælingu til geislavarnastofnunar Finnlands (STUK) og bárust niðurstöður í síðustu viku. Þá kom í ljós að lítið sem ekkert Pb-210 er í sýnunum (eða 0,07 Bq/g) en magn Po-210 í sýninu frá rakaskiljunni mældist um 82 Bq/g. Í sýninu frá höfuðlokanum var magn Po-210 undir greiningarmörkum sem voru 49 Bq/g.  Greiningarmörkin eru óvenju há vegna þess hve sýnið var lítið. Óskað hefur verið eftir frekari mælingu á því sýni til að magngreina Po-210 í því betur. Viðmiðunarmörk þess að útfellingar teljist með aukna geislavirkni eru 1 Bq/g fyrir alfageislandi efni.

Þessi aukna geislavirkni í sýnum frá Hellisheiðarvirkjun er minni en mælist í virkustu sýnunum frá Reykjanesvirkjun og gefur því ekki tilefni til meiri varúðarráðstafana við hreinsun og geymslu útfellinga en þar.

Stofnunin heldur áfram athugun á náttúrulegri geislavirkni við jarðvarmavirkjanir og mun birta upplýsingar um framvindu verkefnisins á heimasíðu stofnunarinnar.

Gert er ráð fyrir að mati Geislavarna ríkisins á styrk náttúrulegra geislavirkra efna í útfellingum í jarðvarmavirkjunum ljúki á árinu 2016.