Radon er geislavirk eðallofttegund sem verður til við hrörnun úrans í berggrunninum og kemur því náttúrulega fyrir í umhverfinu. Hluti geislaálags Íslendinga kemur til vegna innöndunar radons. Víða erlendis, sérstaklega á Skandinavíuskaganum þar sem berggrunnurinn er úr úranríku graníti, veldur radon stærsta einstaka þættinum í heildargeislaálagi almennings (aðrir þættir eru t.d. geimgeislun og læknisfræðileg notkun geislunar). Á Íslandi er berggrunnurinn að mestu úr basalti, sem er rýrt af úrani, og því er radonstyrkur hér með lægsta móti. Þó er mikilvægt að henda reiður á hver styrkurinn hér er og kanna hvort hér á landi leynist staðir með hærri gildi.

Undanfarið ár hafa Geislavarnir ríkisins staðið fyrir mælingum á radoni í híbýlum manna á Íslandi. Mælingarnar fóru þannig fram að sjálfboðaliðar víða um landið fengu send til sín lítil geislanema með plastflögu. Nemunum komu þeir fyrir heima hjá sér, á jarðhæð eða í kjallara. Þegar radon gefur frá sér alfageislun í námunda við plastflöguna myndast rák á henni og þannig skráir hún hversu mikið radon er í loftinu sem umlykur hylkið.

Radon geislanemi frá RadosysTil viðbótar við mælingar í heimahúsum var mælt á nokkrum stöðum þar sem helst mætti hugsa sér að radon væri að finna (til dæmis í jarðhitalaugum, virkjunum, og göngum). Nemarnir voru í söfnun í um það bil eitt ár og síðan sendir til framleiðanda í aflestur. Alls voru 500 nemar settir í söfnun og 420 þeirra skiluðu sér aftur í aflestur. Niðurstöðurnar úr aflestrinum liggja nú fyrir.

Niðurstöðurnar á eftir að greina betur en þær eru eins og við var að búast: lítið radon er á heimilum á Íslandi, ólíkt því sem víða er til dæmis annarsstaðar á Norðurlöndunum. Í flestum tilvikum (80%) mældist styrkur radons á jarðhæð eða í kjallara undir 20 Bq/m³ en hæsta mælingin í íbúðarhúsi var um 79 Bq/m³. Til samanburðar má líta til eftirfarandi:

  • Í drögum að nýrri Grunnöryggistilskipun Evrópusambandsins um geislavarnir (EU Basic Safety Standard) er ákvæði um að aðildarríkin skulu setja sér leyfilegt hámark um styrk radon í innilofti íbúðarhúsnæðis og að þau mörk skulu vera undir 300 Bq/m³. 
  • Í skýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um áhrif atómgeislunar(UNSCEAR) frá árinu 2006 má finna samanburð á styrk radons víða um heim. Þar kemur fram að meðaltalsstyrkur radons á heimsvísu er um 40 Bq/m³ í innilofti.
  • Sænska geislavarnastofnunin áætlar að um hálf milljón híbýla þar í landi hafi inniloft með radonstyrk yfir 200 Bq/m³.
  • Norsku geislavarnirnar hafa mælt radonstyrk allt að 10 000 Bq/m³ í innilofti, en algeng gildi eru á milli 100 og 200 Bq/m³.
  • Í Danmörku er meðaltalsstyrkur radons í einbýlishúsum 77 Bq/m³.

Töluverð vinna er framundan við að yfirfara og greina íslensku niðurstöðurnar, kortleggja þær og flokka. Skýrsla um radonmælingar Geislavarna er væntanleg með haustinu. Þá munu sjálfboðaliðarnir einnig fá sendar sínar niðurstöður.

Nánari upplýsingar veitir Óskar Halldórsson, oh@gr.is.