Dagana 15-16 janúar sl. var haldið málþing á vegum Norrænna kjarnöryggisrannsókna (Nordisk Kernsikkerhedsforskning, NKS) sem bar yfirskriftina „Nordic Nuclear and Radiation Risk Estimates – Advances and Uncertainties“. Þátttakendur í málþinginu, sem haldið var í Stokkhólmi, voru rúmlega 90.

Claire Cousins, formaður Alþjóða geislavarnaráðsins (ICRP) var aðalfyrirlesari málþingsins. Fyrirlestur hennar fjallaði um þróun í viðbúnaði eftir kjarnorkuslysið í Fukushima og áhrif frá siðferðilegum áherslum á þróun geislavarna undanfarin ár. Á málþinginu voru kynntar niðurstöður ýmissa verkefna sem NKS hefur styrkt. Einnig voru flutt önnur erindi svo sem um hvernig Svíar ætla að viðhalda nægilegri hæfni í kjarnöryggi og geislavörnum á komandi árum.

Geislavarnir ríkisins taka virkan þátt í verkefnum sem styrkt eru af NKS. Þrjú erindi á málþinginu fjölluðu um verkefni sem stofnunin var aðili að. Það eru verkefnin NANOD, AUTOMORC og EPSHOGAM. NANOD verkefnið er ennþá í vinnslu og snýst um að meta geislaálag af völdum náttúrulegra geislavirkra efna í sjávarafurðum á Norðurlöndunum. Verkefnið AUTOMORC fjallar um fræðilega útreikninga og mælingar á geislun frá sterkum geislalindum þannig að hægt sé að finna þær með næmum mælibúnaði í bílum. Síðasta verkefnið, EPHSOGAM, var æfing í að staðsetja og magngreina losun frá kjarnorkuslysi út frá veðurupplýsingum og niðurstöðum nokkurra geislamælinga.

Á vef NKS (www.nks.org) verður hægt að finna dagskrá málþingsins ásamt glærum. Þar má einnig finna skýrslur um verkefni sem NKS styrkir og upplýsingar um styrki sem NKS veitir ungum fræðimönnum.

Frá vinnu við AUTOMORC verkefnið

Við Barsebäck: Starfsmenn Geislavarna ríkisins við mælingar í NKS verkefninu AUTOMORC