Kjarnorkuslysaæfingar eru mikilvægar til að þróa, þjálfa og prófa viðbrögð við hugsanlegum slysum.  Slík æfing var haldin fimmtudaginn 14. mars sl. í Finnlandi.  Hin Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin nýttu sér hana til að æfa viðbrögð við kjarnorkuslysi í grannríki og ekki síst þá samvinnu á milli landanna sem er nauðsynleg.  Töluverður tími, jafnvel margir dagar, myndi líða frá slíku slysi þar til geislavirk efni frá því gætu borist hingað til lands.  Það er samt mikilvægt samhæfa frá fyrstu stundu mat og ráðgjöf á Íslandi því sem gert er annars staðar á Norðulöndum.  Formlegt mat á æfingunni í heild mun liggja fyrir í sumar, en þegar er ljóst að hún nýttist vel við styrkingu viðbúnaðar á þessu sviði hérlendis.

Að undanförnu, og ekki síst á síðasta ári, hefur verið lögð aukin áhersla á samhæfingu mats á afleiðingum kjarnorkuslysa og að bestu fáanlegu upplýsingar (sem eru að jafnaði frá landinu þar sem slysið á sér stað) séu nýttar sameiginlega.  Finnar halda reglulega kjarnorkuslysaæfingar til að tryggja sem mest öryggi við nýtingu kjarnorku.  Æfingarnar snúast ekki eingöngu um viðbrögð í kjarnorkuverinu sjálfu eða viðbrögð finnskra yfirvalda, heldur eru einnig hafðir með aðrir aðilar sem þurfa að koma að viðbrögðum eða sem afleiðingarnar kunna að snerta.  Eftir slysið í kjarnorkuverinu í Japan 2011 var töluvert rætt um það á Norðurlöndum að þótt vel hefði tekist til með samvinnu á milli Norðurlanda hvað snertir viðbrögð við slysinu, þá myndi slys nærri löndunum reyna mun meir á samvinnuna.  Ríkin ákváðu því, í samvinnu við Eystrasaltsríkin, að nota æfingu Finna til að æfa samvinnu í mati á ástandinu, ráðgjöf og viðbrögðum.  Ringulreið getur skapast ef samhæfingu skortir, t.d. ef ferðamenn eða erlendir íbúar á svæðinu  fá misvísandi ráðgjöf frá heimalöndum sínum og ef nágrannaríki grípa til ólíkra aðgerða.

Geislavarnir ríkisins tóku þátt í æfingunni með það að markmiði að þjálfa starfsfólk frekar í því að bregðast við fregnum af kjarnorkuslysi, koma á tengslum við viðeigandi aðila innanlands og erlendis og að hafa á hverjum tíma sem gleggsta mynd af framgangi slyssins, mati á því og þeim ráðleggingum sem fram koma og viðbrögðum.  Ennfremur að eiga hlut að mótun mats, ráðlegginga og viðbragða eftir því sem við á.  Af erlendum aðilum var haft samband við aðrar norrænar geislavarnastofnanir og eistnesku stofnunina (vegna nálægðar við Finnland og vegna leikinnar fyrirspurnar frá íslenskum ferðamönnum um áhættu og viðbrögð vegna ferjusiglingar til Finnlands), auk Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, IAEA.  Viðbúnaðardeild hennar gegnir lykilhlutverki í því að miðla opinberlega staðfestum upplýsingum um kjarnorkuslys.  Af innlendum aðilum var m.a. haft samband við Veðurstofu (vegna samvinnu um mat á dreifingu efna frá slysinu), Landhelgisgæsluna (sem vaktar frumboðanir um kjarnorkuslys erlendis frá og getur veitt upplýsingar um íslensk skip á hafsvæðum víða um heim), Sóttvarnalækni (vegna fyrirspurna um heilsufarsleg áhrif) og Borgaraþjónustu utanríkisráðuneytis (vegna ráðgjafar til íslendinga erlendis).  Ennfremur var haft samband við aðila í flugrekstri vegna flugs frá Eystrasalti.  Meðan á æfingu stóð fengu starfsmenn Geislavarna ýmsar fyrirspurnir og verkefni til úrlausnar, auk þess sem þeir uppfærðu reglulega vefsíðu með upplýsingum um slysið og mat stofnunarinnar á því.

Á komandi vikum verður unnið að mati á árangri æfingarinnar,  með áherslu á norræna samhæfingu og niðurstaðan verður síðan tekin til umfjöllunar á fundi í Helsinki 13.-14. júni.  Af hálfu Geislavarna er ljóst að æfingin var mjög gagnleg til þróunar verkferla og þjálfunar, auk þess sem rík áhersla var lögð á norrænt samstarfi í mati ástands og við töku ákvarðana.

Nánari upplýsingar um æfinguna veitir Sigurður Emil Pálsson, viðbúnaðarstjóri.