Það er til lítils að leggja mikla atorku í úrvinnslu og túlkun ef meinbugir eru á sýnatökunni. Hún þarf að byggjast á skilningi á því sem verið er að taka sýni af og vera tölfræðilega traust. Jafnframt verður að vera ljóst hvað skuli í reynd meta með úrvinnslu og túlkun. Þetta er vandamál í mörgum greinum vísinda.

Á undanförnum árum hefur verið vaxandi áhugi innan geislavistfræði að ráða bót á þessu og meðal annars gaf International Commission on Radiation Units and Measurements árið 2006 út leiðbeinandi rit um sýnatöku, Sampling of Radionuclides in the Environment. Í ritinu er lögð áhersla á að margur vandi sýnatöku geislavistfræði sé sameiginlegur öðrum greinum.

Ráðstefnu NKS um marktækni sýnatöku er ætlað að kynna og efla umræðu um ýmsar hliðar vanda við sýnatöku, bæði almenna (t.d. tölfræðilega) þætti og eins þætti sem bundnir eru við ákveðnar aðstæður eða umhverfi. Bæði verður fjallað um hefðbundið umhverfi, en einnig nýja þætti (fyrir þá sem hafa verið í hefðbundum umhverfisrannsóknum), t.d. mat á umfangi vanda vegna dreifingar á varasömu efni í borgarumhverfi og vinnu á hugsanlegum glæpavettvangi, þar sem öll meðferð og túlkun sýna þarf að standast rýni fyrir dómi. Ráðstefnan takmarkast því ekki við viðfangsefni geislavistfræði. Meðal þeirra sem hefur verið boðið að halda erindi eru:

  • Marian Scott, prófessor við tölfræðideild háskólans í Glasgow. Hún var ein þeirra sem tóku saman leiðbeiningarit ICRU sem vísað var til að ofan og hún mun fjalla um tölfræði sýnatöku. · Gabriele Voigt, yfirmaður rannsóknastofu Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) í Seibersdorf og leiðandi í mörgum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum. Hún mun fjalla um alþjóðlega samanburðaræfingu um greiningu geislavirkra efna í jarðvegssýnum.
  • Brenda J. Howard, yfirmaður Centre for Ecology & Hydrology, Lancaster Env. Centre. Hún hefur verið leiðandi í mörgum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum og hlotið MBE orðu Bretadrottningar fyrir störf sín. Hún mun fjalla um nýlega breska úttekt um val á aðferðum til mats á (geisla)vöktun umhverfis.
  • Phil J. Tattersall, yfirmaður þeirrar deildar bresku geislavarnastofnunarinnar sem sá um mat á umfangi Po-210 vandans í kjölfar eitrunar Litvinenko í árslok 2006. Hann mun fjalla um aðkomu deildar sinnar að því máli.
  • Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur hjá tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hann mun fjalla um vinnu og sýnatöku á vettvangi hugsanlegs glæps og koma inn á sérstakan vanda vegna geislavirkra efna.

Ýmsir aðrir norrænir og íslenskir fyrirlesarar munu einnig flytja erindi. Sigurður Emil Pálsson, sviðsstjóri hjá Geislavörnum ríkisins og aðalskipuleggjandi ráðstefnunnar, getur veitt nánari upplýsingar um efni hennar, netfang sep@gr.is, sími 552 8200. Kynningu á ráðstefnunni má finna á vefsíðunni: https://www.gr.is/nks-b/Reykjavik-2008/ þar er einnig að finna tilvísun í dagskrá hennar:

https://www.gr.is/nks-b/Reykjavik-2008/programme.pdf

Sem fyrr segir er aðgangur ókeypis og öllum heimill, þó þarf að skrá sig hjá Geislavörnum ríkisins eigi síðar en þriðjudaginn 22. janúar með því að senda skeyti á gr@gr.is. Hægt er að sækja alla ráðstefnuna eða einungis hluta hennar, við skráningu þarf þó að tilgreina hvaða hluta viðkomandi óskar eftir að sækja. Nánari upplýsingar um NKS og starf þess má fá á vef samtakanna: www.nks.org.

Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins, er nú formaður stjórnar NKS og Sigurður Emil Pálsson er að láta af störfum sem stjórnandi þess sviðs NKS sem hefur styrkt rannsóknir og ráðstefnur á sviði geislavistfræði og viðbúnaðar við geislavá (NKS-B)