Norrænar kjarnöryggisrannsóknir (NKS) gengust fyrir ráðstefnu í Stokkhólmi þann 8.-9. janúar  sl. um hvaða lærdóm Norðurlönd gætu dregið af slysinu í Fukushima. Á annað hundrað manns sótti ráðstefnuna og fyrirlesarar voru á þriðja tug, þar af þrír sem eru leiðandi í alþjóðlegu starfi á sviði geislavarna.

Reynslan sýnir að það tekur langan tíma að rannsaka orsakir og afleiðingar stórslysa, það getur hæglega tekið áratug. Það er þó brýnt að draga sem fyrst lærdóm af slysinu, jafnvel þótt myndin af því eigi eftir að skýrast í mörg ár enn.  Norðurlönd eiga með sér náið samstarf um geislavarnir, geislaviðbúnað og kjarnorkutækni, þetta er einkum innan samstarfsvettvangsins „Norrænar kjarnöryggisrannsóknir“, NKS (www.nks.org). Þótt nú þegar hafi verið haldnar margar ráðstefnur um Fukushima-slysið, þótti vera full ástæða til að halda norræna ráðstefnu um lærdóm af slysinu, þar sem áhersla væri á samvinnu Norðurlanda á þessu sviði, hvað hafi tekist vel og hvað mætti gera betur.  Samstarf Norðurlandanna er ekki eingöngu innbyrðis, þau vinna oft saman á alþjóðavettvangi.  Við skipulagningu þessarar ráðstefnu var leitast við að láta dagskrána endurspegla þennan fjölbreytileika, fjalla um kjarnorkutæknina jafnt sem viðbrögð og mat á slysinu nær og fjær. Í hópi fyrirlesara voru norrænir sérfræðingar ásamt nokkrum fremstu sérfræðingum heims á þessu sviði.

Meðal alþjóðlegra fyrirlesara voru:

  • Abel González, varaformaður Alþjóðageislavarnaráðsins, ICRP. Hann hefur starfað að geislavörnum í áratugi og er einn eftirsóttasti fyrirlesari heims á þessu sviði.  Hann var einnig formaður nefndar ICRP, sem fjallaði um hvaða lærdóm mætti draga af slysinu varðandi almennt skipulag geislavarna.
  • Wolfgang Weiss, formaður vísindanefndar Sameinuðu Þjóðanna um áhrif jónandi geislunar (UNSCEAR).  Þessi nefnd hefur um áratugaskeið verið leiðandi í mati á áhrifum geislunar og hún vinnur nú að skýrslu um áhrif slyssins í Fukushima.  Áætlað er að skýrslan verði birt í upphafi sumars.
  • André-Claude Lacoste, fyrrum forstjóri franska kjarnorkueftirlitsins (ASN) (lét af þeim störfum síðla árs 2012).  Hann hefur verið talsmaður aukinnar alþjóðlegrar samvinnu á sviði kjarnorkueftirlits um margra ára skeið og var leiðandi í evrópskri umræðu á þessu sviði eftir slysið í Fukushima.

Abel González talaði af mikilli reynslu um geislavarnir og geislunarslys, kosti og galla núverandi kerfis geislavarna við leggja tölulegt mat á slys sem geta valdið örlítilli áhættuaukningu fyrir marga, jafnvel það lítilli að hún verði hverfandi miðað við aðrar uppsprettur geislunar, ekki síst náttúrulegar.  Hann benti á ýmis dæmi um ósamræmi sem bæta þarf úr.

Wolfgang Weiss sagði frá vinnu UNSCEAR við mat á heilsufarslegum áhrifum slyssins í Fukushima.  Við slíkt mat má ekki gleyma náttúruhamförunum sem orsökuðu slysið, skertum lífskjörum, streitu og ýmiss konar álagi sem hefur valdið og mun valda heilsutjóni.  Slík heilsufarsáhrif slysins í Fukushima munu að öllum líkindum einnig eiga eftir að sjást.  Þær niðurstöður sem nú liggja fyrir benda hins vegar til þess að heilsufarleg áhrif af völdum geislunar verði það takmörkuð að ekki verði unnt að greina þau með faraldsfræðilegum rannsóknum og engin heilsufarsleg áhrif af völdum geislunar hafa komið í ljós til þessa.  Sex geislastarfsmenn fengu meiri geislun en 250 mSv, 170 meiri en 100 mSv og verið er að meta geislun á skjaldkirtil fjölda fólks.

André-Claude Lacoste benti á að rannsókn stórslysa tæki iðulega áratug, sú yrði án efa reyndin hér.  Bregðast þyrfti þó strax við með bættu öryggismati, prófunum og úrbótum.  Evrópusambandið gekkst fyrir álagsprófun kjarnakljúfa, þar sem kannað var hversu vel þeir gætu staðist miklar náttúruhamfarir.  Jafnframt var þol öryggiskerfa prófað gagnvart svipuðum skaða og í Fukushima.  Niðurstöður úttektar í Frakklandi voru þær að franskir kjarnakljúfar stóðust prófið og ekki væri ástæða til að loka neinum þeirra.  Svipuð niðurstaða fékkst annars staðar í Evrópu.  Hins vegar væri í ljósi reynslunnar frá Fukushima þörf á frekari öryggisþróun, tryggja að lykilkerfi kjarnorkuvera geti unnið áfram þrátt fyrir miklar almennar skemmdir og að auðvelda utanaðkomandi hjálparteymum að veita aðstoð í skemmdu veri.  Ein meginniðurstaða fundar nefndar á vegum Alþjóða­kjarn­orku­mála­stofnunarinnar, IAEA, var að það þyrfti að skipuleggja öryggismál kjarnorkuvera þannig að slys í kjarnorkuveri myndi ekki valda langtíma geislamengun utan svæðis versins.

Frá Norðurlöndum voru 23 fyrirlesarar sem töluðu um marvíslega reynslu af slysinu, t.d. af hverju Svíar ákváðu að dreifa joðtöflum til þegna sinna í Japan á meðan aðrir gerðu það ekki, hvernig Norðurlöndin hefðu unnið vel saman með margvíslegum hætti, en einnig hvernig þau gætu aukið og bætt samvinnuna í framtíðinni.  Alþjóðlegir gestir (sem komu frá öðrum löndum en Norðurlöndum) fóru lofsamlegum orðum um norræna samvinnu, en hvöttu þó löndin til að beita sér enn meir á alþjóðavettvangi, bæði innan og utan Evrópu.

Nálgast má dagskrá ráðstefnunnar á vef NKS:

http://www.nks.org/en/news/nks_fukushima_seminar_program_final.htm

NKS stefnir einnig að því að birta útdrætti erinda, skyggnur og jafnvel upptökur erinda.  Þetta mun verða aðgengilegt frá vef NKS:  www.nks.org

Í nýrri skýrslu Geislavarna um vöktunarmælingar stofnunarinnar árið 2011 er í viðauka fjallað um slysið í Fukushima, orsakir þess og afleiðingar.  Sjá nánar:

https://www.gr.is/2013/01/15/ny-skyrsla-voktunarmaelingar-geislavarna-rikisins-2011/

Nánari upplýsingar um ráðstefnu NKS veitir Sigurður Emil Pálsson, viðbúnaðarstjóri.