Geislavarnir ríkisins áttu nýverið þrjá fulltrúa á norrænni vinnustofu um gammagreiningu (GammaUser). Vinnustofan var haldin hjá geislavarnastofnun Finnlands, STUK, í Helsinki 6.-8. október sl. Geislavarnir tóku þátt í undirbúningi hennar ásamt fulltrúum frá hinum Norðurlöndunum, en um er að ræða verkefni sem hófst árið 2009 og er fyrirséð að framhald verði á því.

Gammagreining er rannsóknaraðferð til að greina og meta magn geislavirkra kjarntegunda. Gammageislandi efni gefa frá sér geislun af ákveðinni orku sem er einkennandi fyrir hverja kjarntegund. Gammagreining snýst svo um að bera kennsl á efnin og meta magn þeirra.

Áður en vinnustofan var haldin bauðst þátttakendum að fá send tvö gammaróf (þ.e. hrágögn úr mælitækjum) til greiningar, auk sýnis af loftsíu frá Fukushima, til mælingar á eigin rannsóknastofum. Sérfræðingar Geislavarna ríkisins náðu að greina rófin og mæla sýnið með viðunandi niðurstöðum.

Boðið var upp á kynningarnámskeið í gammagreiningu sem var m.a. sótt af starfsfólki kjarnorkuvera og öðrum sem ekki hafa gammagreiningu að meginstarfi. Á vinnustofunni sjálfri fjölluðu reyndir sérfræðingar í gammagreiningu frá Belgíu og Frakklandi um ýmis úrlausnarefni í fræðunum. Auk þess voru fjölmörg erindi frá þátttakendum sjálfum um notkun og vandamál tengd gammagreiningu.

Vinnustofan var styrkt af Norrænum kjarnöryggisrannsóknum (NKS) og verður gerð skýrsla um árangur og niðurstöður vinnustofunnar og hún birt á heimasíðu NKS.

Gammaróf loftsíu frá Fukushima-svæðinu ásamt bakgrunnsrófi

Gammaróf loftsíu frá Fukushima-svæðinu ásamt bakgrunnsrófi