Vinnustofa um gammagreiningu (GammaUser 2014) verður haldin í Helsinki í Finnlandi dagana 6.-8. október næstkomandi. Markmið vinnustofunnar er að hvetja til samvinnu og hugmyndaskipta þeirra sem vinna við gammagreiningu á Norðurlöndunum. Vinnustofan hefst með kynningarnámskeiði í gammagreiningu og svo taka við fyrirlestrar og umræður um sértæk atriði gammagreiningar. Vinnustofan er styrkt af Norrænum Kjarnöryggisrannsóknum (NKS).

Þegar geislavirkt efni hrörnar gefur það frá sér gammageislun af ákveðinni orku sem er einkennandi fyrir efnið. Sérhver geislavirk kjarntegund setur þannig fingrafar sitt á geislunina sem hún gefur frá sér. Gammagreining kallast sú tækni að mæla orkuróf gammageislunar frá sýni eða öðru viðfangi og greina út frá rófinu hvaða gammageislandi efni eru til staðar og í hvaða magni.

Gammagreiningu er víða beitt, til dæmis í kjarnorkuiðnaði, við rannsóknir, í heilbrigðisgeiranum, í viðbúnaði, og við umhverfismælingar. Geislavarnir ríkisins beita gammagreiningu meðal annars til að fylgjast grannt með magni geislavirks sesíns í umhverfi Íslands (sjá til dæmis nýjustu vöktunarskýrslu Geislavarna).

Á vinnustofunni í Helsinki munu margskonar notendur gammagreiningar koma saman til að ræða vandamál og úrlausnir á þeim. Þekktir og virtir sérfræðingar í gammagreiningu halda fyrirlestra á vinnustofunni og að auki munu þátttakendur leggja til efni hennar og umræður.

Fulltrúar Geislavarna ríkisins taka þátt í undirbúningnum fyrir vinnustofuna og taka virkan þátt í henni. Lesa má um vinnustofuna hér og áhugasamir geta skráð sig á hana með því að fylla út skráningarblað hér.