nkslogoBirt hefur verið lokaskýrsla verkefnis sem Geislavarnir voru aðili að, en það fól m.a. í sér mælingar á geislavirku úrfelli í sunnanverðu Hvíta-Rússlandi í september sl. Verkefnið var fjármagnað af Norrænum kjarnöryggisrannsóknum (NKS).

Verkefnið tengist verkefni um vettvangsmælingar sem fram fór á sömu slóðum á síðasta ári, þar sem áherslan var á notkun geislaskimunarbúnaðar. Við mælingarnar í september sl. var fyrst og fremst beitt færanlegum gammarófsmæli, en með gögnum frá honum má af nákvæmni greina magn hverrar gammageislandi kjarntegundar í námunda mælisins. Tækið er sambærilegt gammarófsmælum sem Geislavarnir beita m.a. við mælingar á vöktunarsýnum á rannsóknastofu stofnunarinnar en er sérhannað til nota utan rannsóknastofu, svo sem á vettvangi slyss, við eftirlit, eða til að meta umfang geislavirks úrfellis. Aðrir þátttakendur beittu einnig annarri tækni, eins og lesa má um í skýrslu verkefnisins. Niðurstöðurnar voru bornar saman við umfangsmiklar mælingar sem gerðar hafa verið á svæðinu um árabil og með þeim samanburði fengin staðfesting á áreiðanleika mælinganna. Þátttakendur í verkefninu voru frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Skotlandi, auk tveggja starfsmanna Geislavarna og var það unnið í náinni samvinnu við yfirvöld á staðnum. Lokaskýrslu verkefnisins er að finna hér.

iceland_team_equipment_150cm-230x409