Geislavarnir ríkisins og systurstofnanir í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi benda á að notkun ljósabekkja auki líkur á húðkrabbameini. Tíðni húðkrabbameina, þar á meðal illkynja sortuæxla, hefur aukist á síðustu áratugum á Norðurlöndum en útfjólublá geislun frá sól og ljósabekkjum er helsti áhættuþáttur við myndun húðkrabbameina.

Notkun ljósabekkja í fegrunarskyni eða til annarra nota en lækninga er óráðleg, að áliti norrænu geislavarnastofnananna, og talið er sérstaklega mikilvægt að þeir sem eru yngri en 18 ára eða með ljósa og viðkvæma húð noti ekki ljósabekki.

Stofnanirnar leggja áherslu á að starfsfólk sólbaðsstofa þurfi að hafa næga þekkingu á útfjólublárri geislun til að leiðbeina viðskiptavinunum um notkun ljósabekkja, í þeim tilgangi að draga sem mest úr áhættu viðskiptavina. Norrænu geislavarnastofnanirnar mæla því gegn notkun ljósabekkja sem tengdir eru sjálfsölum.

Auk þess hvetja norrænu stofnanirnar til þess að Evrópusambandið setji sem fyrst reglur um ljósabekki og notkun þeirra, með öryggi og heilsu viðskiptavinanna að leiðarljósi.

Sameiginlegu yfirlýsingu norrænu geislavarnastofnanna er að finna hér:

Common public health advice from Nordic radiation protection and health authorities

Sérstök athygli er vakin á meðfylgjandi grafi í yfirlýsingunni á bls. 8 sem sýnir aukningu sortuæxla hjá konum á Norðurlöndum.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Þorgeir Sigurðusson, fagstjóri ójónandi geislunar

sími 5528200