Árlegur fundur Norrænu geislavarnastofnananna um læknisfræðilega notkun geislunar (Nordic Group for Medical Application – NGMA) var haldinn hjá dönsku geislavörnunum í lok ágúst sl. Tveir fulltrúar frá hverju landi sátu fundinn sem stóð yfir í tvo daga.

Samstarfshópurinn um læknisfræðilega notkun geislunar á sér 40 ára sögu og er ein af birtingarmyndum öflugs samstarfs Norðurlandanna á sviði geislavarna en með því að sameina krafta sína verður rödd þjóðanna sterkari á alþjóðavettvangi en ella.

Á árlegum fundum hópsins skiptast löndin m.a. á upplýsingum um það helsta í starfseminni hverju sinni og geta þannig dregið lærdóm hvert af öðru og samræmt stefnu sína þegar við á. Sem dæmi um samstarf má nefna samstarf við eftirlit í svokölluðum eftirlitsmannaskiptum sem hafa gefið góða raun. Þetta gagnast t.d. þegar ný starfsemi hefst í einu landi sem þegar er til staðar í hinum löndunum.

Starfsemi hópsins hefur leitt til útgáfu á Norrænum ritum, yfirlýsingum og leiðbeiningum í gegnum árin. Geislavarnir ríkisins sjá um vefsíðu hópsins en hún er http://nordicxray.gr.is/. Eins er hægt að nálgast efnið á vef Gr á https://gr.is/sameiginlegritgeislavarnastofnana/.

Mörg spennandi verkefni eru á borði hópsins núna og því er von á meira efni frá honum á næstu árum um læknisfræðilega notkun geislunar.