Gammagreining er tækni sem gegnir lykilhlutverki við að þekkja og meta magn geislavirkra efna.  Samtökin norrænar kjarnöryggisrannsóknir (NKS) hafa undanfarin ár gengist fyrir ráðstefnum um þessa tækni og var sú síðasta haldin í Hveragerði sl. haust.  Nú er nýlokið í Reykjavík undirbúningsfundi fyrir næstu ráðstefnu, en á henni verða m.a. kynntar niðurstöður samanburðarmælinga sem þátttakendum gefst í sumar kostur á að taka þátt í.

Norrænar kjarnöryggisrannsóknir (NKS, www.nks.org) hafa á liðnum árum staðið fyrir ráðstefnum og vinnustofum um geislamælitækni, sérstaklega um svokallaðar geislarófsmælingar.  Þessi tækni gegnir lykilhlutverki í að þekkja geislavirk efni og meta magn þeirra.  Síðasta ráðstefnan af þessum toga var í umsjá Geislavarna ríkisins og haldin að Hótel Örk í Hveragerði 11.-12. september síðastliðinn (sjá nánar frétt frá 5.9.2012).  NKS hafa einnig gengist fyrir ýmsum samanburðarmælingum og -greiningum.  Ýmist hefur þá samanburðarsýnum verið dreift til mælinga eða frumniðurstöðum mælinga og þátttakendur síðan átt að vinna úr þeim.

Í síðustu viku var haldinn í Reykjavík undirbúningsfundur fyrir næstu ráðstefnu.  Ákveðið var að hún yrði í Umeå í Svíþjóð 17.-19. september í haust og að þemað verði að gefa þátttakendum tækifæri á að meta hvað hafi áunnist á undanförnum árum og hvar umbóta sé helst þörf.  Við skráningu í maí mun því þátttakendum gefast kostur á að fá sýni til eigin mælinga og einnig að glíma við misflóknar niðurstöður mælinga annarra.  Þessum niðurstöðum þarf að skila í sumarlok, þá fá þátttakendur réttar niðurstöður og árangurinn verður síðan tekinn til umfjöllunar á ráðstefnunni.  Auk norrænna þátttakenda verður að venju einum til tveimur af fremstu sérfræðingum frá öðrum löndum boðið til ráðstefnunnar.

Hluti af framlagi Geislavarna til þessa norræna starfs hefur verið að halda úti wiki-vef um geislarófmælitækni, þar sem ráðstefnurnar hafa jafnframt verið auglýstar og efni tengt þeim verið aðgengilegt:

https://www.gr.is/wiki/GammaWiki/

Mæligögn vegna samanburðaræfinga verða gerð aðgengileg á þessum vef eigi síðar en 6. maí í vor.

Á vormánuðum hefur hjá Geislavörnum verið lögð áhersla á að styrkja getu á sviði geislarófsmælinga og fellur þátttaka í þessu norræna starfi vel að því.

Nánari upplýsingar um fundinn og þetta verkefni veitir Sigurður Emil Pálsson