Röntgenhópurinn eða „Diagnostic X-Ray Group“ er einn þáttur í öflugu samstarfi norrænna geislavarnastofnana. Vinnuhópurinn hefur haldið árlega fundi síðan 1983, þar sem fjallað er um geislavarnir sjúklinga og starfsmanna við notkun jónandi geislunar í læknisfræðilegri myndgreiningu.

Árlegur fundur hópsins var haldinn dagana 24. – 25. maí s.l.. Að þessu sinni var fundarstaðurinn um borð í ferju sem sigldi á milli Tromsö og Lófóten í Noregi.

Á fundinum voru sérfræðingar frá öllum Norðurlöndunum og báru menn saman bækur sínar um lagaramma landanna, framkvæmd eftirlits, rannsóknir á þessu sviði og sameiginleg verkefni.

Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að söfnun mæligagna um geislaálag barna við tölvusneiðmyndarannsóknir (TS) á öllum norðurlöndunum. En þar sem slíkar rannsóknir eru mjög fáar og margbreytilegar, hefur það reynst erfitt að ná fram tölfræðilega marktækum niðurstöðum. Markmiðið með þessari söfnun upplýsinga er að setja fram sameiginleg viðmiðunar-gildi geislunar fyrir TS rannsóknir á börnum á Norðurlöndunum. Gera má ráð fyrir að niðurstöður þessa verkefnis liggi fyrir innan árs.

Á fundinum í Tromsö voru auk umræðna um fjölda samstarfsverkefna, rætt um aukið samstarf við geislavarnastofnanir í Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Stefnt er að því að bjóða fulltrúum frá þessum stofnunum til fundar samhliða norrænni ráðstefnu sem haldin verður á vegum NSFS í Ålesund í Noregi dagana 26. – 30. maí 2008.

Á ráðstefnunni í Ålesund verður starfsemi hópsins kynnt með fyrirlestrum og veggspjöldum.

Rontgenhopurinn

 

 

 

             

 

 

 

 

 Mynd:  Röntgenhópurinn í miðbæ Tromsö í lok fundar.

 

6.6.2007 

Guðlaugur Einarsson