Nú í janúar héldu Norrænar kjarnöryggisrannsóknir (NKS) málþing um helstu verkefni sem styrkt höfðu verið undanfarin tvö ár, og þá sérstaklega hvað megi læra af þeim í ljósi kjarnorkuslyssins í Fukushima. Málþingið var haldið í Stokkhólmi dagana 12.-13. janúar sl. og tóku um 100 sérfræðingar þátt í því.

Á málþinginu voru flutt mörg áhugaverð erindi um hin fjölmörgu og fjölbreytilegu verkefni á sviði viðbúnaðar og kjarnöryggis sem NKS hefur styrkt. Einnig héldu gestafyrirlesarar erindi, m.a. var farið yfir skýrslu Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) um slysið í Fukushima sem var gefin út á síðasta ári og er öllum aðgengileg á vef stofnunarinnar. Einnig var flutt erindi frá Alþjóðageislavarnaráðinu (ICRP) um málþing sem voru haldin á svæðunum kringum Fukushima Daiichi þar sem saman komu almenningur, fulltrúar kjarniðnaðarins og yfirvalda og ýmis málefni tengd slysinu voru tekin fyrir.

Meðal áhugaverðra verkefna voru erindi um þrjú NKS verkefni sem Geislavarnir ríkisins tóku þátt í. Fyrst er að nefna NORCON sem fjallar um mögulegar afleiðingar kjarnorkuslyss á Norðurlöndunum. Þetta verkefni unnu Geislavarnir í nánu samstarfi við Veðurstofu Íslands sem gerði spálíkan um dreifingu geislavirkra efna frá kjarnorkuslysi. Einnig var flutt erindi um MOBELRAD og GAMFAC en þau verkefni fólust í vettvangsmælingum í suðurhluta Hvíta-Rússlands á svæði sem er geislamengað vegna slyssins í Tsérnobyl. Tilgangur verkefnanna var að æfa viðbúnaðarstarfsmenn á Norðurlöndum í mælingum á verulega geislamenguðu svæði.

Á vef NKS má finna dagskrá málþingsins ásamt glærum en þær, ásamt upptökum af fyrirlestrunum, hafa verið gerðar aðgengilegar öllum. Einnig er að finna á vef NKS skýrslur um verkefnin sem Geislavarnir tóku þátt í og nefnd eru hér að ofan.

Frá vettvangsvinnu í Hvíta-Rússlandi

Frá vettvangsvinnu í GAMFAC verkefninu í Khoiniki í Hvíta-Rússlandi