Leit að týndum eða stolnum geislalindum getur verið vandasamt verk. Til þess þarf góðan tækjabúnað og þekkingu. Geislavarnir ríkisins taka nú þátt í norrænu verkefni sem miðar að því að sannreyna líkan sem metur næmni mælibúnaðar til þess að finna geislalind, miðað við fjarlægð. Stofnunin hefur öflugan tækjabúnað til slíkrar leitar og verkefnið er gott tækifæri til að æfa notkun hans við raunhæfar aðstæður. Undirbúningur verkefnisins hófst í mars, en í september fer teymi frá stofnuninni til Svíþjóðar þar sem keyrt verður með mælibúnaðinn fyrirfram ákveðna leið. Á þessari leið verður búið að koma fyrir mismunandi geislalindum í ákveðinni fjarlægð frá veginum og teymin reyna svo að meta hvort mælibúnaður þeirra nái að mæla geislun frá þeim. Auk þess að sannreyna líkanið sem notast er við, er verkefnið gott tækifæri fyrir norrænu geislavarnastofnanirnar til að bera saman mismunandi mælibúnað og tækni sem notuð er við leit af þessu tagi.

Verkefnið nefnist MOMORC (e. Mobile Search of Material Outside of Regulatory Control) og er styrkt af Norrænum kjarnöryggisrannsóknum (NKS). Lokaskýrsla verkefnisins verður birt á vefsetri NKS.

Ymsar_geislalindir

Geislalindir geta litið út með ýmsum hætti og verið nær ósýnilegar eða t.d. hluti af stærri tækjum. Myndirnar sýna örfá dæmi.