Undirbúningur er hafinn að þátttöku starfsmanna frá Geislavörnum ríkisins í verkefni sem styrkt er af Norrænum kjarnöryggisrannsóknum (NKS) og snýst um vettvangsmælingar á geislamenguðum svæðum.

Í þessu skyni er fyrirhugað að gera mælingar á svæði í sunnanverðu Hvíta-Rússlandi, sem varð fyrir verulegu geislavirku úrfelli í kjölfar Tsérnobyl slyssins í apríl 1986. Mikið hefur verið fjallað um áhrif slyssins í Úkraínu, en minna farið fyrir umfjöllun um mengunina sem varð norðan landamæranna að Hvíta-Rússlandi, sem var síst minni en Úkraínumegin. Prófuð verður notkun þess mælibúnaðar sem þátttakendur hafa yfir að ráða við þær óvenjulegu aðstæður sem ríkja á lokuðu svæði umhverfis Tsérnobyl kjarnorkuverið. Verkefnið er að mörgu leyti krefjandi og reynir á undirbúning og samhæfingu búnaðar og aðgerða samstarfsaðila, þar sem verkið er unnið fjarri venjulegum starfsstöðvum þátttakenda og án þeirra innviða sem þeir hafa alla jafna aðgang að. Til að mynda eru öll fjarskipti stopul og notkun nákvæmra korta og skráning landupplýsinga bönnuð. Aðgangur að svæðinu er háður leyfi og ströngu eftirliti sem sérstök stofnun sinnir. Engu má raska og ekkert fjarlægja af svæðinu né nýta það á nokkurn hátt annan en til rannsókna. Áhersla er lögð á eldvarnir á svæðinu og eru slökkvistöðvar fjölmargar, því ef t.d. skógareldur brytist út gætu geislavirk efni dreifst enn frekar en orðið er. Þá er nákvæm lega landamæra Úkraínu og Hvíta-Rússlands umdeild á þessum slóðum og þurfa þátttakendur stöðuga fylgd starfsfólks svæðisins til að tryggja öryggi.

Með þátttöku í verkefninu gefst tækifæri til að gera mælingar við raunverulegar aðstæður sem óhugsandi væri að sviðsetja í æfingu. Undirbúningur er hafinn en mælingarnar í Hvíta-Rússlandi eru fyrirhugaðar í september nk., ef aðstæður leyfa.