Samstarfshópur um varnir gegn útfjólublárri geislun var stofnaður í byrjun árs 2004. Í hópnum eru fulltrúar frá Geislavörnum ríkisins, Embætti landlæknis, húðlæknum og Krabbameinsfélaginu. Capacent-Gallup fylgist með ljósabekkjanotkun á Íslandi með árlegum könnunum fyrir hönd hópsins.

Niðurstöður kannana sína að verulega hefur dregið úr notkun ljósabekkja undanfarin ár. Hún hefur þó haldist nær óbreytt undanfarin þrjú ár, en samkvæmt henni nota rúmlega 10% landsmanna ljósabekki í einhverjum mæli.

Ljósabekkir-2016-graf1-300x193

Kannanirnar sýna einnig að ljósabekkjanotkun ungmenna hefur minnkað töluvert frá því að samstarfshópurinn var stofnaður.  Árið 2004 höfðu um 38% aðspurðra notað ljósabekki í einhverjum mæli en sá hópur var kominn niður í 25% árið 2015.

Í könnuninni var einnig spurt að því hvort viðkomandi hefði brunnið af völdum sólar eða ljósabekkja á síðastliðnum tólf mánuðum. Með bruna er átt við að roði myndist á húð ásamt því að sviði sé til staðar. Árið 2015 sögðust um 21% svarenda hafa brunnið undanfarna tólf mánuði.