Fréttavefur Morgunblaðsins birti s.l. föstudagskvöld (10.6) frétt um niðurstöður breskrar rannsóknar þar sem kannað var hvort búseta nærri kjarnorkustöðvum leiddi til aukinnar tíðni á krabbameins hjá börnum. Þessi frétt byggði á fréttum sem birst höfðu á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC. Niðurstöðurnar voru kynntar í Bretalandi fyrr um daginn og þær sýndu að engin slík aukning áhættu var greinanleg í grennd við neitt breskt kjarnorkuver.

Bakgrunnur þessa máls er að óháð bresk nefnd vísindamanna, COMARE (Committee on Medical Aspects of Radiation in the Environment), hefur rannsakað ýmsa læknisfræðilega þætti tengda umhverfisgeislun og nú á föstudaginn sendi hún frá sér skýrslu með niðurstöðum rannsóknar á tíðni krabbameins á meðal barna í grennd við kjarnorkustöðvar í Bretlandi. Til grundvallar var lögð ítarleg rannsókn á 32 þúsund tilvikum krabbameins hjá börnum á árunum 1969 – 1983. Vísindamennirnir telja svo ítarlega faraldsfræðilega rannsókn einsdæmi. Niðurstaðan sýndi enga marktæka aukningu í tíðni krabbameins hjá börnum sem bjuggu í grennd við neitt kjarnorkuver í Bretlandi (miðað var við 25 km fjarlægð).

Hærri tíðni krabbameins fannst hins vegar í grennd við aðrar kjarnorkustöðvar en kjarnorkuver og kom það ekki á óvart, slík fylgni hefur áður komið fram í rannsóknum og umfjöllun um þær niðurstöður má einnig finna á vefsetri COMARE. Kjarnorkuver nýta geislavirk efni til orkuframleiðslu og mynda við það hágeislavirkan úrgang. Þetta er hins vegar lokað framleiðsluferli og dreifing geislavirka efna til umhverfis getur verið sáralítil. Það er oft meiri hætta á að geislavirk efni berist til umhverfis frá öðrum kjarnorkustöðvum, t.d. þar sem unnið er með hágeislavirkan úrgang eða mikið magn geislavirkra efna á öðru formi. Marktæk fjölgun krabbameinstilvika hefur sést í grennd við ýmsar slíkar stöðvar en það þarf þó ekki að hafa verið af völdum geislunar frá þeim.

Niðurstöður þessarar rannsóknar eru í samræmi við það sem búist var við. Hún þykir þó renna mun traustari stoðum undir þá ályktun að búseta í grennd við kjarnorkuver þurfi ekki að fela í sér aukna áhættu vegna krabbameins. Nálgast má útdrátt skýrslunnar og skýrsluna í heild sinni á vefsetri COMARE.

Frétt Morgunblaðsins

http://www.mbl.is/mm/frettir/togt/frett.html?nid=1143124

Frétt BBC http://news.bbc.co.uk/2/hi/health/4077298.stm

Vefsetur COMARE http://www.comare.org.uk/

Fréttatilkynning COMARE um nýju rannsóknina: http://www.comare.org.uk/press_releases/comare_pr10.htm

Nýja skýrslan: http://www.comare.org.uk/documents/COMARE10thReport.pdf

Fréttatilkynningar varðandi fyrri rannsóknir: http://www.comare.org.uk/press_releases/comare_press.htm