Geislavarnir birtu fræðsluefni um leysa og leysibenda á vefsíðu sinni í desember 1997 og var það síðast endurskoðað 1999, en er í öllum aðalatriðum enn í gildi:

https://www.gr.is/fraedsluefni/leysar/

Þar kemur m.a. fram að það skapar vissan vanda að flokkun leysa er mismunandi í Bandaríkjunum annars vegar og flestum öðrum löndum hins vegar. Með nýjum staðli hefur verið reynt að ráða bót á þessu, flokkun samkvæmt honum er þó ekki orðin ríkjandi á markaðnum. Það gildir þó sem fyrr að til almennra nota er engin ástæða til að kaupa sterkari leysibendi en í flokki 2 (flokkar 3 og 4 eru sterkari). Afl þeirra er undir 1 mW. Leysibendar í almennri sölu í Evrópu uppfylla flestir þetta skilyrði, leysibendar á markaði í Bandaríkjunum geta geta hins vegar farið upp í 5 mW og eru þá komnir yfir mörkin.

Einnig er rétt að vekja athygli á gildandi reglugerð nr. 120/1988 um leysitæki en þar segir m.a. í 1. gr.: „Notkun öflugra leysitækja sem ljósabúnaðar á stöðum, sem almenningur hefur aðgang að, er háð leyfi og eftirliti Geislavarna ríkisins. Þau tæki teljast öflug, sem eru í 3. og 4. flokki leysitækja samkvæmt alþjóðlegri flokkun slíkra tækja“.

Þeir sem vilja nota leysibenda (t.d. við fyrirlestra) ættu því að halda sig við leysibenda í flokki 2 (< 1mW) og þeir sem vilja nota leysigeisla með öðrum hætti á stöðum þar sem almenningur hefur aðgang að er bent á að hafa samband við Geislavarnir ríkisins ef um tæki í flokki 3 eða 4 er að ræða.