AMAP (Arctic Monitoring and Assessment Programme) er vinnuhópur vísindamanna sem starfar á vegum Norðurskautsráðsins. Hlutverk hans er að veita upplýsingar um ástand náttúru á Norðurskautssvæði og ógnir sem að henni steðja, sem og að veita stjórnvöldum ráðgjöf á vísindalegum grunni um aðgerðir til verndunar og forvarna í tengslum við mengun og varnir gegn áhrifum loftslagsbreytinga.

Meðal þess sem fengist er við á þessum vettvangi er mat á geislavirkni og nýverið var birt ný matsskýrsla um geislavirkni á Norðurskautssvæði, AMAP assessment 2015: Radioactivity in the Arctic. Skýrslur um sama efni voru gefnar út fyrir árin 1998, 2004 og 2009 en í þeirri nýju eru höfð til hliðsjónar ný gögn og matið uppfært með tilliti til þeirra, auk þess sem tekin eru til skoðunar svið sem ekki var fjallað um í fyrri matsskýrslum. Geislavarnir ríkisins hafa um langt árabil tekið þátt í starfi hópsins og lagt fram gögn sem m.a. eru lögð til grundvallar matsskýrslna AMAP. Gögn frá Íslandi eru í skýrslunni ágætlega fram sett í 4. kafla um vöktun og í 5. kafla um mælingar á geislavirkum efnum frá Fukushima.

Í tengslum við birtingu þessarar nýju matsskýrslu var gefin út fréttatilkynning þar sem í meginatriðum segir að af skýrslunni megi ráða að hugsanleg mengun af völdum manngerðra geislavirkra efna innan svæðisins eða utan sé enn áhyggjuefni. Er í því sambandi m.a. vísað til dreifingar á geislavirkum efnum frá Fukushima sem sums staðar var mælanleg þótt í afar smáum stíl væri. Þótt styrkur manngerðra geislavirkra efna á svæðinu sé afar lágur og fari lækkandi, þá sé áfram ákveðin hætta á að geislavirk efni geti losnað til umhverfisins frá losunar- og geymslustöðum á hafsbotni og á landi. Því sé brýnt að halda áfram reglulegri vöktun á svæðinu.

Þá segir í fréttatilkynningunni að auknar líkur séu á mengun samfara þróun jarðefnavinnslu og er þar átt við náttúruleg geislavirk efni. Sömuleiðis geti þiðnun sífrera leitt til aukinnar losunar þess háttar efna og þannig stuðlað að auknu náttúrulegu geislaálagi þeirra sem slík svæði byggja.

Í fréttatilkynningunni er einnig getið um árangur af aðgerðum til að draga úr áhættu af völdum geislavirkra efna, svo sem brottflutning rafala sem knúnir eru varma frá geislavirkum efnum (RTG) og hreinsun geislavirks úrgangs frá svæðum í NV-Rússlandi.