Þann 1. febrúar sl. gaf Velferðarráðuneytið út nýja reglugerð um innflutning og notkun leysa, leysibenda og svokallaðra IPL-tækja (e. intense pulsed light). Þessi reglugerð er sett með stoð í lögum nr. 44/2002 um geislavarnir með síðari breytingum og kemur hún í stað reglugerðar um sama efni frá 2011 (nr. 954/2011).

Reglugerðina má nálgast á vefsetri Reglugerðasafnsins.

Helstu breytingar í þessari nýju reglugerð eru að nú nær hún einnig til svokallaðra IPL-tækja sem gefa frá sér sýnilegt ljós yfir MPE-öryggismörkum sem tiltekin eru í staðlinum ÍST EN 60825-1. Þá er ný grein (5. gr.) um læknisfræðilega notkun leysa og IPL tækja, sem nær einnig til notkunar þeirra í fegrunarskyni.

Samkvæmt 5. gr. skal læknisfræðileg notkun leysa og IPL tækja vera á ábyrgð lækna, augnlækna, tannlækna, hnykkja og sjúkraþjálfara eins og við á hverju sinni og skulu þeir m.a. sjá til þess að þeir sem vinna við leysa og IPL-tæki hafi fullnægjandi fræðslu og þjálfun í notkun þeirra. Þá skulu þeir einnig, sbr. 8. gr., tilnefna umsjónarmenn með notkuninni og útbúa skriflegar öryggisreglur í samráði við Geislavarnir ríkisins.

Öll notkun öflugra leysa í flokkum 3B og 4, svo og IPL-tækja er tilkynningarskyld sbr. 6.gr. reglugerðarinnar (sjá tilkynningarblað á vef stofnunarinnar)

Sem fyrr er notkun öflugra leysa og leysibenda leyfisskyld sbr. 7. gr. reglugerðarinnar og er óheimilt að framselja leyfi til notkunar án leyfis Geislavarna ríkisins (sjá umsóknareyðublöð á vef stofnunarinnar).