Alþjóða geislavarnaráðið (ICRP, International Commission on Radiological Protection) hafa nýlega gefið út ný rit sem eru aðgengileg ókeypis á Íslandi vegna rammasamnings stjórnvalda um aðgengi að vísindaritum (sjá tengla að neðan)

Publication 97.

Þetta rit ber heitið Prevention of High-Dose-Rate Brachytherapy Accidents. Í því er fjallað um tilkomu HDR geislameðferðar og notkun hennar almennt í geislalækningum. HDR geislameðferð byggist á notkun geislavirka efnisins Iridíum 192 (192Ir), og mögulegt er að geisla með miklum geislunarstyrk (1,6 -5 Gy /mínútu). Af þeim sökum geta mistök í meðferð, notkun og umgengni leitt til alvarlegra slysa. Mannleg mistök er algengasta ástæða slysa. Í ritinu er fjallað um notkun HDR og um nauðsynlega menntun og þekkingu þeirra sem vinna með slíkan búnað. Lögð er áhersla á mikilvægi gæðaeftirlits til þess að draga úr líkum á slysum. Fjallað er ítarlega um þau slys sem tilkynnt hafa verið og rannsökuð. Í ritinu eru tilteknar leiðbeiningar um framkvæmd og tækjabúnað vegna HDR og lögð áhersla á mikilvægi viðbúnaðaráætlunar og að viðbúnaður sé æfður. Gæta þarf þess að HDR lindir séu tryggar m.t.t. þjófnaðar eða taps. Samstarf sérhæfs starfsfólks í notkun HDR linda, sem starfar eftir ströngum gæðaeftirliti dregur einnig úr líkum á slysum. Viðhald búnaðar er ómissandi hluti af gæðaeftirliti, ásamt utanaðkomandi gæðaúttektum sem styrkir örugg vinnubrögð og dregur jafnframt úr slysahættu.

Publication 98.

Þetta rit ber heitið Radiation Safety Aspects of Brachytherapy for Prostate Cancer Using Permanently Implanted Sources og er þar fjallað um geislavarnir vegna varanlegra ígræðslu geislavirkra efna (sáða) Oftast er um að ræða notkun á 125I og 103Pd vegna geislameðferðar á blöðruhálskirtilskrabbameini. Veruleg aukning hefur orðið í notkun þessara geislavirku sáða í heiminum á síðustu 15 árum og er gert ráð fyrir því að allt að 50.000 manns verði meðhöndlaðir á hverju ári. Notkun þessara sáða er vaxandi í heiminum, en ekki er vitað um skaða af völdum þessarar notkunar, hvorki hjá heilbrigðis-starfsmönnum eða almenningi. Geislaálag fjölskyldu eða sambýlisfólks sjúklinga með slík sáð eru vel undir 1 mSv á ári. Losun sáða með þvagi eða um meltingarveg er sjaldgæf og einfaldar leiðbeiningar til sjúklinga tryggja að slík losun auki ekki geislunaráhættu. Ítrekað er mikilvægi upplýsingargjafa til sjúklinga.

Draft Guidance document

Nýlega setti ICRP fyrstu drög að nýju riti á vefsetur sitt til umsagnar. Hér um að ræða frumdrög að riti þar sem fjallað eru um mat á starfsbundnu geislaálagi vegna inntöku geislavirkra efna. Búist er við því að nýtt grundvallarrit ICRP verði gefið út í lok þessa árs eða á fyrri hluta 2007. Í framhaldi af því þarf að gefa út endurskoðuð rit sem fjalla um mat á geislaálagi vegna inntöku geislavirkra efna. Í gangi er mikil vinna við þessa endurskoðun og er þetta skjal hugsað sem leiðbeiningaskjal vegna þess. Endurskoða þarf reiknistuðla í ritum 30 og 68 fyrir geislaálag vegna inntöku geislavirkra efna og mat á lífgreinimælingum samkvæmt ritum 54 og 78.

Tenglar

Kynning útgefanda (Elsevier) á ICRP 97 og ICRP 98 og bein tenging í texta ritanna (sem PDF skrár) á vísindaritamiðlun hvar.is / Science Direct:

ICRP 97
Kynning útgefanda                 Texti ritsins


ICRP 98

Kynning útgefanda                
Texti ritsins

 

Vefsíða Elsevier um ICRP       Heimasíða ICRP

Vefsíða Science Direct með ritum ICRP, hér má fá öll nýleg rit ICRP ókeypis á rafrænu formi