Á nýafstöðnum fundi Samtaka evrópskra geislavarnastofnana (HERCA) í Reykjavík samþykkti stjórn samtakanna að gefa út nýja skýrslu vinnuhóps um viðbúnað (Working Group on Emergencies, WGE). Skýrslan ber titilinn Practical proposals for further harmonisation of the reactions in European countries to any distant nuclear or radiological emergency. Frétt um útgáfuna má finna á vef HERCA.

Eins og titillinn gefur til kynna lýsir skýrslann tillögum um  samræmd viðbrögð í Evrópu við geislaslysum utan álfunnar. Markmið skýrslunnar er annars vegar að auðvelda geislavarnastofnunum að bæta viðbúnað sinn á ýmsum sviðum og hinsvegar að taka saman yfirlit yfir helstu atriði sem hafa ber í huga þegar bregðast þarf við geislaslysi utan álfunnar.

Allt frá stofnun HERCA árið 2007 hefur það verið forgangsverkefni að samræma viðbrögð við geislaslysum. Slysið í Daiichi kjarnorkuverinu í Fukushima ítrekaði enn frekar mikilvægi þessa starfs. Á fundi samtakanna í Brussel í júní 2011 sammæltist stjórn samtakanna um nauðsyn þess að samræma og samstilla á alþjóðlegum vettvangi, og sér í lagi innan Evrópu, viðbrögð geislavarnastofnana við aðstæðum á borð við þær sem voru í Fukushima. Verkefni vinnuhópsins í viðbúnaðarmálum var þá útvíkkað þannig að það næði til viðbragða við neyðaraðstæðum sem eiga upptök langt fjarri landamærum Evrópulandanna. Nýja skýrslan er afrakstur vinnu sem þá fór af stað og í henni má finna ráðleggingar um hvernig tryggja megi samræmi milli þjóða þegar kemur að ákvörðunartöku. Einnig eru þar ráðleggingar um góða siði í miðlun ákvarðana og ráðleggingar um meðhöndlun ferðalanga frá landinu eða svæðinu þar sem slysið varð.

Vinnuhópurinn beinir núna athygli sinni að viðbúnaði gegn slysum sem gætu orðið í aðildarlöndum samtakanna. Meginmarkmið þeirrar vinnu er að leggja fram hagnýtar lausnir til að samræma viðbrögð við hverskyns alvarlegri geislavá, óháð landamærum. Mikilvægt er að ráðleggingar yfirvalda séu samræmdar en um leið er ekki hægt að ætlast til að allar þjóðir byggi sínar geislavarnir eins upp. Vinnuhópurinn hefur þegar lagt fram útlínur sinnar nálgunar á vandann. Hugmyndin er að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað og finna málamiðlanir fyrir hinar ýmsu aðstæður. Niðurstöður úr þeirri vinnu eru brátt væntanlegar.