Geislavirk efni eru stundum gefin sjúklingum vegna sjúkdómsgreiningar. Geislaálag sem hlýst af þessu er almennt lítið, en það er engu að síður mikilvægt að geta lagt tölulegt mat á það til að geta sýnt fram á hversu lítið geislaálagið er. Niðurstöður sýna að meðalgeislaálag vegna þessara rannsókna er lágt. Tiltölulega lítið er til af sambærilegum erlendum gögnum, en þau benda engu að síður til að notkun hérlendis sé álíka og gerist annars staðar í löndum með svipuð lífsskilyrði.

Þessi skýrsla inniheldur samantekt mats á geislabyrði af völdum inngjafar geislavirkra efna til sjúklinga vegna greininga sjúkdóma á Íslandi árið 2008. Með geislabyrði er átt við það geislaálag sem hlýst af inntökunni. Birtar eru niðurstöður um dæmigert magn efnis sem notað er í hverri rannsókn, hversu margar rannsóknir voru gerðar (í heild og á hverja þúsund íbúa), meðgeislabyrði hverrar tegundar rannsóknar, meðalgeislabyrði hvers íbúa landsins og hópgeislaálag. Með því að bera saman aldursháða skömmtun í inngjöf og aldursháða eðlisgeislabyrði (hversu mikið geislaálag einn einingarskammtur, t.d. 1 MBq, hefur í för með sér) sést að aldursáhrif þessara tveggja þátta eru gagnstæð, einn þáttur vegur annan upp að verulegu leyti. Geislaálag af völdum rannsóknar er því tiltölulega lítt háð aldri og það rýrir því heildarniðurstöður lítið þótt aldur sé ekki tekinn með í heildarútekt. Notkun geislavirkra efna til lækninga var ekki tekin með í þessari úttekt, enda forsendur notkunar allt aðrar og réttlæting notkunar helgast af lækningagildi fyrir viðkomandi sjúkling. Heildarfjöldi rannsókna vegna sjúkdómsgreiningar var 3447 og hópgeislaálag af völdum þeirra 15,6 mannSv. Fjöldi rannsókna á hverja þúsund íbúa var 10,8. Beinaskönn voru stór hluti rannsóknanna (6,0 á hverja þúsund íbúa) og meðalgeislaálag af völdum hverrar slíkrar rannsóknar 4,2 mSv. Meðalgeislálag á hvern íbúa Íslands af völdum rannsókna þar sem geislavirk efni eru notuð við sjúkdómsgreiningu var einungis 0,049 mSv og niðurstöður sýna því að framlegð þessarar tegundar sjúkdómsgreininga er lítið miðað við aðra notkun jónandi geislunar við sjúkdómsgreiningu og einnig lítið miðað við náttúrulega geislun. Vegna þess að það er almennt vitað að geislaálag af völdum þessara rannsókna er lítið, þá hefur tiltölulega lítil áhersla verið erlendis á að gera ítarlegar úttektir á þeim. Það stendur þó til bóta, til dæmis er von á niðurstöðum evrópskrar úttektar síðar á árinu 2013. Niðurstöður þessarar úttektar voru bornar saman við niðurstöður úr breskum rannsóknum og samantekir á vegum vísindanefndar (UNSCEAR) á vegum Sameinuðu þjóðanna. Íslensku niðurstöðurnar gáfu almennt svipaða niðurstöður, að svo miklu leyti sem unnt var að bera niðurstöðurnar saman.

Nýju skýrsluna má nálgast sem PDF skjal hér.

Sigurður Emil Pálsson veitir nánari upplýsingar um efni hennar.