Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um áhrif kjarnorkugeislunar (United Nations Scientific Committee on the Effects of Atomic Radiation, UNSCEAR) hefur gefið út ítarlega skýrslu um mat á magni og áhrifum geislunar í kjölfar skemmda á Fukushima-Daiichi kjarnorkuverinu í mars 2011.

Hinn 11. mars 2011 urðu gríðarmiklar skemmdir á Fukushima-Daiichi kjarnorkuverinu í Japan af völdum jarðskjálfta að styrk 9 og flóðbylgju í kjölfar hans. Geislavirk efni dreifðust frá verinu og mikill fjöldi fólk var fluttur frá heimilum sínum. UNSCEAR var að leggja lokahönd á umfangsmikla rannsókn til að meta geislaskammta og tengd áhrif á heilsu fólks og á umhverfið, en Sameinuðu þjóðirnar fólu nefndinni það verk síðla árs 2011. Samantekt niðurstaðna var kynnt í október síðastliðnum en ítarleg skýrsla með vísindagögnum og nánari skýringum var birt 2. apríl sl.

Í skýrslunni er m.a. lagt mat á eftirfarandi atriði:

  • magn og samsetningu geislavirkra efna sem dreifðust til umhverfisins
  • dreifingu efnanna á landi og sjó og helstu ákomustaði
  • samanburð við slysin í Tsérnobyl 1986, Three Mile Island 1979 og Windscale 1957.
  • líklegar afleiðingar geislunarinnar fyrir heilsu fólks og umhverfið

UNSCEAR, sem tilheyrir Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP), leiðir og samhæfir starf lykilstofnana á þessu sviði, s.s. CTBTO, FAO, IAEA, WHO og WMO.

Í fréttakilkynningu segir m.a. að ólíklegt þyki að merkjanlegar breytingar á tíðni krabbameina, arfgengra sjúkdóma og fæðingargalla verði raktar til geislunar frá slysinu, og að skjót viðbrögð japanskra stjórnvalda eigi hvað stærstan þátt í því. Engu að síður sé hugsanlegt að áhætta á krabbameini í skjaldkirtli meðal þeirra barna sem urðu fyrir mestri geislun aukist. Til að greina það muni þó þurfa nána eftirfylgni enda sé skjaldkirtilskrabbamein barna afar sjaldgæft.

Lagt hefur verið mat á þá geislun sem starfsmenn og björgunarfólk varð fyrir og þykir ólíklegt að hún leiði af sér aukna tíðni krabbameina en fylgst verður með heilsufari þeirra sem urðu fyrir mestri geislun.

Þá er mat nefndarinnar að áhrif geislunar frá slysinu á lífríki lands og sjávar séu tímabundin, og áhrif á sjávardýr og sjávargróður takmörkuð við strandlengjuna í næsta nágrenni við kjarnorkuverið.