Í skýrslunni eru teknar saman vöktunarmælingar Geislavarna ríkisins á geislavirku sesíni (Cs-137) í umhverfinu og í matvælum árið 2006. Sesín-137 var mælt í andrúmslofti (svifryki), úrkomu, kúamjólk (ferskri mjólk og mjólkurdufti), lambakjöti, sjó, þangi og fiski. Niðurstöður mælinga benda til að um litlar breytingar sé að ræða á styrk sesíns síðustu árin.

Í andrúmslofti er styrkur sesíns < 3 μBq/m3 og í úrkomu < 1 mBq/l. Í mjólk mælist styrkur sesíns að jafnaði tæpt 1 Bq/kg og í mjólkurdufti 10 Bq/kg. Styrkur sesíns í lambakjöti er mjög breytilegur yfir landið og spannar vítt bil, 4-48 Bq/kg. Í sjó mælist styrkur sesíns 1,3-3,6 Bq/m3. Hæstur styrkur mælist jafnan í pólsjó fyrir norðan og vestan land. Styrkur Tc-99 (teknetín-99) í sjó mælist 0,08 Bq/m3 að jafnaði. Í þangi mælist styrkur sesíns á bilinu 0,05-0,3 Bq/kg og í fiski á bilinu 0,1-0,2 Bq/kg.

Ofangreind gildi eru svipuð gildum undanfarinna ára, þó almennt ögn lægri. Styrkur sesíns í íslenskum matvælum er í öllum tilvikum langt neðan þeirra alþjóðlegu viðmiðunarmarka sem miðað er við í milliríkjaverslun, 1000 Bq/kg.

Styrkur gammageislunar er mældur stöðugt við fjórar sjálfvirkar veðurstöðvar Veðurstofu Íslands, þ.e. á Bolungarvík, Raufarhöfn, Akurnesi og í Reykjavík, auk þess sem hann hefur verið mældur um árabil á Rjúpnahæð. Styrkur geislunar er almennt lágur, eða 40-80 nSv/klst.