Geislavarnir ríkisins hafa birt skýrslu með niðurstöðum mælinga stofnunarinnar á styrk geislavirks sesíns í andrúmslofti, úrkomu, mjólk, lambakjöti, sjó, fiski, þangi ofl. á árinu 2011. Styrkur efnisins er í öllum tilvikum langt neðan þeirra marka sem miðað er við í milliríkjaviðskiptum með matvæli. Skýrsluna, „Vöktunarmælingar Geislavarna ríkisins 2011, GR 12:03“, má nálgast hér á PDF formi.

Í skýrslunni eru teknar saman niðurstöður vöktunarmælinga Geislavarna ríkisins á geislavirku sesíni (Cs-137) í umhverfinu og í matvælum árið 2011. Sesín-137 var mælt í eftirfarandi sýnaflokkum: 

  • Andrúmslofti (svifryki)
  • Úrkomu
  • Kúamjólk (nýmjólk og mjólkurdufti)
  • Lambakjöti
  • Sjó
  • Þangi
  • Fiski

Niðurstöður mælinga benda til að litlar breytingar hafi orðið á styrk sesíns síðustu árin og að a.m.k. sé ekki um marktæka aukningu að ræða. Í sjó mældist styrkur sesíns 1,19-2,05 Bq/m3 og í fiski frá því að vera neðan greiningarmarka og allt að 0,25 Bq/kg ferskvigt. Í mjólk mældist styrkur sesíns 0,4 – 1,4 Bq/kg ferskvigt og í mjólkurdufti 5,5 -12,5 Bq/kg þurrvigt. Styrkur sesíns í lambakjöti er jafnan breytilegur, í sýnum frá árinu 2011 mældist hann 1 – 38 Bq/kg, sem má telja dæmigert.

Í viðauka við skýrsluna er kafli um slysið í kjarnorkuverinu í Fukushima í Japan sem varð í kjölfar jarðskjálftans og flóðbylgjunnar 11. mars 2011. Þar er fjallað um eðli slyssins og hættunnar sem skapaðist, dreifingu geislavirkra efna, heilsufarslegar afleiðingar slyssins, viðbrögð við því og umfjöllun, auk þess sem þar er að finna ítarlega samantekt mælinga á meðalstyrk geislavirkra efna frá Fukushima í svifryki í Reykjavík.

Auk þessa er í viðauka fjallað um gammarófsmælingar á vettvangi sem urðu mögulegar með tilkomu færanlegs gammarófsmælis sem tekinn var í notkun árið 2011.

Kjartan Guðnason og Sigurður Emil Pálsson geta veitt nánari upplýsingar um efni skýrslunnar.