Gefin hefur verið út endurskoðuð tilskipun sem samþykkt var af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (European Commission, EC) 5. desember sl. og birtist í Stjórnartíðindum ESB 17. janúar sl. Tilskipunin tekur gildi 6. febrúar nk. og er ætlast til að aðildarlönd Evrópusambandsins innleiði ákvæði hennar í löggjöf sína fyrir 6. febrúar 2018.

Fullt nafn tilskipunarinnar er:  COUNCIL DIRECTIVE 2013/59/EURATOM of 5 December 2013 laying down basic safety standards for protection against the dangers arising from exposure to ionising radiation, and repealing Directives 89/618/Euratom, 90/641/Euratom, 96/29/Euratom, 97/43/Euratom and 2003/122/Euratom

Í daglegu tali er talað um þessa tilskipun sem grunnstilskipun ESB um geislavarnir (e. EU Radiation Protection Basic Safety Standard, EU BSS). Endurskoðunin byggir á nýjum leiðbeiningum Alþjóðageislavarnaráðsins (ICRP) sem komu út 2007, sem og breyttum áherslum í grunnöryggisreglum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) um geislavarnir (IAEA BSS) sem komu út á árinu 2011. Í þessari tilskipun hefur nokkrum eldri tilskipunum á sviði geislavarna verið steypt saman, s.s. tilskipun um geislavarnir við læknisfræðilega geislun og vegna hágeislavirkra geislalinda.

Tilskipunin hefur það í för með sér að geislavarnalöggjöf einstakra ríkja sambandsins verður í samræmi við breyttar kröfur um ýmsa þætti, s.s. sjálfstæði geislavarnastofnana, leyfisveitingar, viðmiðanir um radon og náttúrleg geislavirk efni og fleira. Nýlegar breytingar á lögum um geislavarnir sem samþykktar voru á Alþingi og tóku gildi þann 1. janúar 2014 taka einnig mið af ákvæðum þessarar tilskipunar.