reykjanesvirkjun_holutoppurNiðurstöður mælinga á sýnum sem tekin voru við Reykjanesvirkjun í lok ágúst og byrjun september sl. bárust nú í vikunni. Aukin náttúruleg geislavirkni mældist hærri en í sýnum sem mæld voru fyrr á árinu, mest um tvöfalt hærri.

Í lok ágúst og í byrjun september sl. hreinsaði HS Orka útfellingar með aukna náttúrulega geislavirkni úr rörum við borholur við Reykjanesvirkjun skv. leyfi frá Geislavörnum ríkisins. Rúmmál útfellinganna sem fjarlægðar voru úr rörunum var um 800 lítrar. Starfsmenn stofnunarinnar fylgdust með hreinsuninni og gerðu ýmsar mælingar. Fjölmörg sýni voru tekin til frekari mælinga. Til að fá vottaða mælingu (gammarófsgreiningu) á geislavirkninni í útfellingunum voru 19 sýni send til geislavarnastofnunar Finnlands (STUK) til greiningar. Niðurstöður þeirra greininga bárust Geislavörnum þann 10. nóvember. Aukin náttúruleg geislavirkni mældist hærri en í fyrri mælingum. Hæstu gildin mældust í sýnum sem tekin voru næst borholutoppunum en lægri í sýnum sem tekin voru fjær. Virkasta sýnið mældist með 418,4 Bq/g af Po-210 (pólon-210) og 80,3 Bq/g af Pb-210 (blý-210), en það er um tvöfalt hærra en virkasta sýnið sem mælt var fyrr á árinu. Þessar niðurstöður gefa  ekki tilefni til breytinga á vinnulagi eða á leyfi til hreinsunar.

Stofnunin heldur áfram athugun á náttúrulegri geislavirkni við aðrar jarðvarmavirkjanir, sjá í tilkynningu frá stofnuninni 30. október sl., og mun birta upplýsingar um framvindu verkefnisins á heimasíðu stofnunarinnar.