Rétt fyrir áramót gaf Velferðarráðuneytið út þrjár reglugerðir um geislavarnir sem verið hafa í vinnslu á síðasta ári. Þessar reglugerðir eru settar með stoð í lögum nr. 44/2002 um geislavarnir með síðari breytingum og fjalla þær m.a. um hámörk þeirrar geislunar sem starfsmenn og almenningur mega verða fyrir vegna vinnu við geislun (bæði jónandi og ójónandi), geislavarnir vegna lokaðra geislalinda og geislavarnir vegna geislatækja sem gefa frá sér jónandi geislun. Með þessum reglugerðum er verið að uppfæra ákvæði eldri reglugerða sem í grunninn eru frá 2003, m.t.t. þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á lögum um geislavarnir, svo og þeirra breytinga sem átt hafa sér stað á ráðleggingum frá Alþjóðageislavarnaráðsins (www.ICRP.org) og á geislavarnalöggjöf í Evrópu og víðar.

Reglugerðirnar hafa nú verið birtar á vefsetri Reglugerðasafnsins:

  1. 1290/2015 Reglugerð um hámörk geislunar starfsmanna og almennings vegna starfsemi þar sem notuð er geislun.  Þessi reglugerð kemur í staðinn fyrir reglugerð nr. 627/2003 um hámörk geislunar starfsmanna og almennings vegna starfsemi þar sem notuð er jónandi geislun.
  2. 1298/2015 Reglugerð um geislavarnir við notkun lokaðra geislalinda.  Þessi reglugerð kemur í staðinn fyrir reglugerð nr. 811/2003 með sama nafn.
  3. 1299/2015 Reglugerð um geislavarnir vegna notkunar geislatækja sem gefa frá sér jónandi geislun. Þessi reglugerð kemur í staðinn fyrir reglugerðir nr. 626/2003 um geislavarnir við notkun tannröntgentækja og reglugerð nr. 640/2003 um geislavarnir vegna notkunar röntgentækja, annarra en tannröntgentækja, við læknisfræðilega geislun.