Alþjóða geislavarnaráðið fyrir ójónandi geislun (The International Commission on Non‐Ionizing Radiation Protection (ICNIRP)) hefur gefið út nýjar viðmiðunarreglur og viðmiðunarmörk til verndar fólki vegna rafsegulsviða af útvarpstíðni (100 kHz – 300 GHz). Þær leysa af hólmi viðmiðunarreglur frá árinu 1998. Nýju viðmiðunarmörkin gilda  á Íslandi sbr. 25. gr. reglugerðar nr. 1290/2015 um hámörk geislunar.

Nýju viðmiðunarreglurnar, sem byggja á heildstæðu mati á niðurstöðum fyrirliggjandi vísindarannsókna, taka til allra skaðlegra heilsufarsáhrifa af völdum rafsegulsviðs á útvarpstíðni sem ICNIRP metur vísindalega staðfest. Þær taka m.a. til núverandi og væntanlegrar 5G fjarskiptatækni, þráðlausra neta sem og 3G og 4G fjarskiptatækni sem nú er í notkun. Þeim er m.a. ætlað að tryggja nauðsynlegt öryggi við innleiðingu 5G fjarskiptatækninnar á hærri tíðnisviðum en nú eru notuð.

Helstu breytingarnar í nýju viðmiðunarreglunum, sem varða 5G, eru fyrir rafsegulsvið af tíðni sem er hærri en 6 GHz. Gert er ráð fyrir að 5G fjarskiptatæknin muni nýta svo háa tíðni í framtíðinni. Póst- og fjarskiptastofnun hefur nýlega úthlutað tíðniheimildum fyrir 5G þjónustu á 3,6 GHz tíðnisviðinu. Eftir þessa úthlutun eru eftir 100 MHz óráðstöfuð á 3,6 GHz tíðnisviðinu en tíðnisvið yfir 6 GHz kann að verða tekið í notkun á Íslandi síðar fyrir farnetsþjónustuna.

Nýjar viðmiðunarreglur ICNIRP innihalda viðmiðunarmörk fyrir styrk rafsegulsviðs á tíðnibilinu 100 kHz – 300 GHz (þ.m.t. 5G) fyrir bæði almenning og starfsfólk, svo sem starfsfólk fjarskiptafyrirtækja sem vinnur við uppsetningu og viðhald fjarskiptasenda. Viðmiðunarreglurnar tiltaka viðmiðunarmörk fyrir 5G, bæði á tíðni sem nú er notuð og einnig fyrir hærri tíðni sem líklega verður notuð á komandi árum en einnig t.d tíðnisvið þráðlausra neta (e. WiFi), blátönn (e. bluetooth) og núverandi notkun á 3G og 4G fjarskiptanetum. Viðmiðunarmörkin eru gefin út á grundvelli heildstæðs mats á niðurstöðum fyrirliggjandi vísindarannsókna á hugsanlegum skaðlegum áhrifum rafsegulsviðs. Tekið hefur verið tillit til allra skaðlegra áhrifa sem ICNIRP metur að færðar hafi verið sönnur á. Að mati ICNIRP hefur ekki verið sýnt fram á að fyrir hendi séu skaðleg áhrif rafsegulsviða þegar styrkur þeirra er undir viðmiðunarmörkunum.

Nýju viðmiðunarreglurnar er að finna á heimasíðu ICNIRP. Þar er einnig margvíslegur fróðleikur þeim tengdur m.a. fréttatilkynningalgengar spurningar og svör,  sem og ítarlegur samanburður á viðmiðunarreglunum frá 1998 og þeim nýju, auk kynningarmyndbands um nýju ICNIRP viðmiðunarreglurnar.

Á vef Geislavarna er að finna fræðsluefni um 5G. Þar er einnig að finna frétt um spurningar og svör um 5G fjarskiptanet og heilsu af vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).