Aðvörunarmerki jónandi geislunar hefur verið notað áratugum saman. Það er þriggja laufa tákn með punkti í miðju (sjá mynd)

Merking þessa tákns er þó ekki auðskilin þeim sem ekki þekkja það fyrir. Alvarleg slys (þ.á.m. banaslys) hafa hlotist af því að fólk hefur umgengist lífshættulega geislagjafa án þess að gera sér grein fyrir hættunni, t.d. tekið í sundur geislalækningatæki með sterkum geislagjafa.  Það þótti því brýnt að koma fram með nýtt tákn sem væri þannig að hættan væri augljós, hvort sem fólk þekkti nokkuð til geislunar eða aðvörunartákna tengdum henni.  Nokkur tákn voru hönnuð og þau síðan prófuð í 11 löndum.  Að þessari könnun lokinni var síðan eitt táknanna valið og það hefur nú verið skilgreint í alþjóðlegum staðli, ISO 21482.

Nýja aðvörunarmerkinu er ekki ætlað að koma í stað þess gamla, heldur á að nota það til viðbótar.  Nýja merkið á einungis að nota á eða við hættulega geislagjafa, ekki t.d. á hurðir eða umbúðir.  Tæki sem inniheldur hættulegt geislavirkt efni getur t.d. verið með gamla merkinu á ytra byrði, enda er þá gengið þannig frá efninu að engin hætta starfar af við venjulega notkun tækisins.  Sé tækið hins vegar tekið í sundur, þá á nýja merkið að blasa við.

Nánari upplýsingar um nýja merkið (þ.á.m. útlit þess) og hvernig það skuli notað má finna á vefsíðu Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar, IAEA.