Áður hefur verið sagt frá fróðlegu vefsetri Alþjóðakjarnorkumála-stofnunarinnar, IAEA, um geislavarnir sjúklinga (sjá tilvísun neðst á þessari vefsíðu).

Þar er m.a. að finna tilvísun í nýlega grein í apríl-hefti Radiology, þar sem fjallað er um niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var á læknamiðstöð í Bandaríkjunum. Þar kemur fram að 33% sjúklinga sem sótti þessa miðstöð hafði á lífsleiðinni farið í 5 eða fleiri tölvusneiðmyndarannsóknir. Þá hafði 5% þeirra farið í 22 til 132 rannsóknir. Áætlað var að 15% hefði fengið geislaálag yfir 100 mSv, en til samanburðar má nefna að það samsvarar 5 ára hámarki sem starfsmenn sem vinna við jónandi geislun mega verða fyrir. Þá var einnig áætlað að um 4% sjúklinga væri með uppsafnað geislaálag á bilinu 250 til 1350 mSv. Í greininni er síðan fjallað nánar um aukna krabbameinsáhættu vegna endurtekinna tölvusneiðmyndarannsókna.

Á vefsetrinu er einnig sagt frá nýlegri yfirlýsingu frá Geislavarnastofnun Bandaríkjana (National Council on Radiation Proctection and Measurements, NCRP) vegna væntanlegrar skýrslu nr. 160, þar sem fjallað er um geislaálag almennings vegna jónandi geislunar í Bandaríkjunum árið 2006 og það borið saman við sambærilegar niðurstöður frá fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar. Í skýrslunni kemur fram að bandaríkjamenn verða í dag að meðaltali fyrir sjö sinnum meiri geislun og er aukningin fyrst og fremst vegna aukningar í læknisfræðilegri notkun og þá fyrst og fremst vegna tölvusneiðmyndarannsókna og kjarnlæknisfræðirannsókna (Nuclear Medicine).

Þá birtast á vefsíðunni viðbrögð ACR (samtök röntgenlækna), AAPM (samtök eðlisfræðinga sem starfa í læknisfræði) og HPS (samtök heilsueðlisfræðinga), þar sem sérstaklega er fjallað er um ástæður þessarar hækkunar og þann ávinning sem framfarir í læknisfræðilegri myndgreiningu hafa haft í för með sér.

Á vefsetrinu er einnig fjöldi annarra áhugaverða frétta og leiðbeininga.

Meginsíða vefsetursins er hér

Sjá einnig fyrri frétt um vefsetur IAEA um geislavarnir sjúklinga:

16.02.2009

GE