Sett hefur verið á laggirnar samnorrænt verkefni innan NKS (Norrænna kjarnöryggisrannsókna), nefnt PardNor, sem hefur það að markmiði að endurbæta líkön sem spá fyrir um styrk geislavirkra efna í matvælum í kjölfar kjarnorkuslysa.

Áætlað er að verkefnið taki tvö ár. Á þessu ári verður lögð megináhersla á að safna gögnum frá hverju aðildarríki um eftirfarandi þætti:

  • Matarræði/matarvenjur
  • Hlut innfluttra matvæla í matarræði einstakara þjóða
  • Fóðrun húsdýra, þ.e. fóðrunar- og beitarvenjur

Á Norðurlöndum hafa verið notuð kerfin ARGOS og RODOS til að spá fyrir um geislun sem menn verða fyrir í kjölfar kjarnorkuslysa, á grunni spágilda sem úr þeim fást hafa verið byggðar viðbúnaðaráætlanir. Grunnurinn í þessum kerfum er s.k. ECOSYS líkan. Í ljós hefur komið að brýn þörf er á að endurskoða ECOSYS líkanið af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að það var þróað á níunda áratug síðustu aldar, fyrir Tsjernóbyl slysið í Úkraínu. Í kjölfar þessa slyss jukust mjög rannsóknir í geislavistfræði sem hafa aukið mjög við þekkingu manna á tilfærslu og afdrifum geislavirkra efna í vistkerfinu. Einnig skiptir verulegu máli að margir stuðlar sem notaðir eru í ECOSYS líkaninu eiga við um suðlægari slóðir (t.d. Þýskaland) en þeir taka ekki mið af norrænum landbúnaðarháttum og matarvenjum.