Geislavarnir ríkisins vinna að heildstæðu mati á geislaálagi almennings vegna geislunar af náttúrulegum toga. Nýverið lauk einum áfanga þessa verkefnis, en í honum voru gerðar mælingar á gammageislun á víðavangi og nemum komið fyrir í hús til að mæla radongas í híbýlum.

Geislun af náttúrulegum toga kemur til vegna ýmissa þátta. Þar má nefna geimgeislun, gammageislun frá náttúrulegum geislavirkum efnum í umhverfinu, geislun frá radongasi, og geislun frá náttúrulegum geislavirkum efnum í fæðu og í líkamanum.

Á Íslandi er heildargeislunin af náttúrulegum toga með lægsta móti og ræður þar mestu að berggrunnur landsins er snauður af geislavirkum efnum. Þó er mikilvægt að mæla geislunina með áreiðanlegum hætti, bæði til að gefa tölulegt mat á geislaálag almennings og til að þekkja bakgrunninn til að geta greint hugsanlegar breytingar, t.d. af völdum geislaslysa. Upplýsingarnar þurfa einnig að vera til reiðu því sem framlag Íslands til evrópskra og alþjóðlegra gagnagrunna um umhverfisgeislun. Til að mynda safnar vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um áhrif jónandi geislunar (UNSCEAR) slíkum upplýsingum reglulega saman og gefur út í skýrslu.

Afrakstur þessa áfanga verkefnisins var tvenns konar:

  • Gammageislun á víðavangi var mæld, meðal annars með því að aka næmu geislarófsmælitæki allan hringveginn, með því má meta magn og uppruna geislunar.  Einnig voru gerðar nákvæmar rófmælingar á völdum stöðum. Mælingarnar staðfesta að bakgrunnsgeislunin er lág hér á landi og einnig lítt breytileg eftir staðsetningu. Þeir fáu reitir sem fundust með eitthvað hækkuð gildi voru ekki í byggð.
  • Þá var einnig ýtt úr vör mælingum á radongasi (sjá skýringu hér) í híbýlum um land allt. Markmið mælinganna er að útbúa gögn til að leggja í samevrópskan landupplýsingagrunn. Radonnemar hafa verið settir í söfnun á fjölda heimila um land allt.

Verkefnið heldur áfram. Í vor verður radonnemunum aftur safnað saman, þeir sendir til framleiðanda í aflestur, og þá tekur við úrvinnsla gagna og kortlagning. Í sumar stendur svo til að halda áfram mælingum á víðavangi.

Nánari upplýsingar veitir Óskar Halldórsson, sérfræðingur.