Vegna kvartana um bruna í ljósabekkjum á sólbaðsstofum hafa Geislavarnir ríkisins mælt útfjólubláa geislun í ljósabekkjum á Reykjavíkursvæðinu. Geislunin í svokölluðum Túrbó-bekkjum með 160 Watta perum var í öllum tilfellum meiri en heimilt er. Geislavarnir hafa krafist þess að þessar perur verði teknar úr notkun.

Geislavörnum ríkisins berast öðru hvoru kvartanir og ábendingar vegna bruna í ljósabekkjum á sólbaðsstofum. Vegna kvartana sem bárust í vor og sumar mældu Geislavarnir ríkisins útfjólubláa geislun í öllum gerðum ljósabekkja á höfuðborgarsvæðinu í ágústmánuði. Mælingar voru gerðar í samvinnu við fulltrúa heilbrigðiseftirlits og með mæli kvörðuðum af Geislavarnastofnun Noregs. Mælingarnar staðfestu að geislun í svokölluðum „20 mínútna bekkjum“ er yfirleitt innan leyfilegra marka á meðan geislun í svokölluðum „Túrbó-bekkjum“ með 160 W perum og með 10 mínútna eða skemmri ljósatíma reyndist í öllum tilfellum meiri en heimilt er samkvæmt reglugerð um sólarlampa frá árinu 2003.

Eigendur sólbaðsstofa bera ábyrgð á því að ákvæði reglugerðarinnar séu uppfyllt og Geislavarnir ríkisins hafa krafist þess að perur sem valda meiri geislun en heimilt er verði teknar úr notkun tafarlaust. Ennfremur hefur verið óskað eftir áframhaldandi samstarfi vegna eftirfylgni í byrjun næsta árs þar sem sannreynt verður að geislun frá ljósabekkjum á sólbaðsstofum sé innan marka.

Á hverri sólbaðstofu á að hanga uppi veggspjald með leiðbeiningum Geislavarna ríkisins. Á þessu spjaldi er mælt með að ljósatími í fyrsta skipti sé 5 mínútur, í næsta skipti 10 mínútur en síðan mest 15 mínútur. Þessar leiðbeiningar eiga við um hina svokölluðu 20 mínútna bekki.